Sakborningar yfirheyrðir

Blaðamannafundur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Blaðamannafundur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búist er við að grænlensku skipverjarnir tveir sem grunaðir eru um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana verði yfirheyrðir í dag. Hæstiréttur staðfesti í gær tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim. Rannsókn málsins er enn í fullum gangi og meðal annars vinnur austurrískur réttarmeinafræðingur að krufningu líks Birnu til að afla nánari vitneskju um það hvenær og með hvaða hætti dauða hennar bar að.

Skipulögð hefur verið ganga á laugardaginn í minningu Birnu.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði, segir að eftir atburð sem þennan sé ekkert óeðlilegt við að almenningur finni fyrir óöryggi og vanmætti. Hann segir að líklega fjölgi þeim sem telja sig ekki örugga í miðbænum, en bendir á að mál sem þetta séu mjög sjaldgæf á Íslandi. Fátítt sé að engin tengsl séu á milli geranda og fórnarlambs í morðmáli. Þá segir Helgi að þáttur almennings í leitinni sé einstakur; samfélagið allt hafi verið virkjað.

Framkvæmdastjóri Landsbjargar segir að um síðustu helgi hafi um eitt þúsund manns bæst við Bakvarðasveit samtakanna, en það er fólk sem styrkir björgunarsveitirnar með föstum mánaðarlegum greiðslum.

Áhöfnin á Polar Nanoq sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún vottaði fjölskyldu Birnu samúð sína. Þá sendi Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, foreldrum Birnu einnig samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert