Vara við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu

BSRB varar stjórnvöld við að láta undan þrýstingi þeirra sem …
BSRB varar stjórnvöld við að láta undan þrýstingi þeirra sem vilja einkavæða enn frekar í heilbrigðiskerfinu í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

BSRB varar stjórnvöld við að láta undan þrýstingi þeirra sem vilja einkavæða enn frekar í heilbrigðiskerfinu í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Byggja eigi upp heilbrigðiskerfi sem sé rekið „á réttlátan hátt af hinu opinbera fyrir skattfé landsmanna þar sem allir hafa jafnan aðgang að fyrsta flokks þjónustu.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BSRB, sem segir fagnaðarefni að til standi að byggja upp að nýju íslenska heilbrigðiskerfið, sem sé laskað eftir niðurskurð sem hafi hafist löngu fyrir bankahrunið 2008.

Almenningur kalli eftir því að kerfið verði bætt sem fyrst, og við því eigi stjórnvöld að bregðast og hugsa alla uppbyggingu til langs tíma.  

Rannsóknir sýni að ríflega fjórir af hverjum fimm landsmönnum telja að rekstri heilbrigðiskerfisins sé best fyrir komið hjá hinu opinbera.

„Undanfarið hefur verið mikill þrýstingur frá einkafyrirtækjum á að sífellt fleiri hlutar heilbrigðiskerfisins verði einkavæddir. Þann þrýsting verður heilbrigðisráðherra að standast,“ segir í tilkynningunni.

Rétta leiðin til að stytta biðlista sé ekki að greiða fyrirtækjum sem rekin eru í hagnaðarskyni fyrir að framkvæma aðgerðirnar. BSRB leggist líka alfarið gegn því að skattgreiðslur almennings renni í vasa fjárfesta með hvers konar markaðsvæðingu á heilbrigðisþjónustu.

„Þá verða stjórnvöld einnig að líta til þess að þegar heilbrigðisþjónustan er veitt af einkaaðilum er mun erfiðara fyrir stjórnvöld að móta stefnu fyrir heilbrigðiskerfið í heild sinni. Með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu er dregið úr möguleikum stjórnvalda til að taka stefnumótandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag kerfisins í þágu almannahagsmuna.

BSRB skorar á heilbrigðisráðherra að standa vörð um heilbrigðiskerfið og fara að þjóðarvilja með því að halda heilbrigðisþjónustunni í opinberum rekstri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert