Snjóflóð féll í Esjunni

Ljós sjást í Esjunni þar sem björgunarsveitarmenn eru að störfum.
Ljós sjást í Esjunni þar sem björgunarsveitarmenn eru að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi voru kallaðar út vegna snjóflóðs sem féll í hlíðum Esjunnar rétt fyrir klukkan 17. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg féll flóðið í um 600 metra hæð hægra megin við aðalgönguleiðina á fjallið.

Flóðið tók með sér þrjá göngumenn að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Tveir náðu að komast upp en einn maður er ófundinn.

Björgunarsveitarfólk með leitarhunda og tækjabúnað eru á leið á slysstað og þeir fyrstu komu á slysstað rétt fyrir klukkan 18. Annar mannanna tveggja sem komust úr flóðinu er slasaður en nánari upplýsingar um meiðsl mannsins liggja ekki fyrir að svo stöddu. 

Yfir 130 björgunarsveitarmenn taka þátt í aðgerðinni og þá hafa allir snjóflóðaleitarhundar á suðvesturhorninu verið kallaðir út til aðstoðar. Þá nota björgunarsveitarmenn dróna til að leita að manninum sem er saknað.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór á vettvang með björgunarsveitarmenn á staðinn. Búist er við að þyrlan muni jafnframt flytja þann slasaða á sjúkrahús til aðhlynningar. 

Björgunarsveitir eru farnar á vettvang.
Björgunarsveitir eru farnar á vettvang. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert