Heiða Björg í varaformanninn

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að bjóða sig fram til varaformennsku í Samfylkingunni, en kosið verður í embættið 4. febrúar. Logi Már Einarsson tók við formennsku í flokknum í kjölfar þingkosninganna í lok október eftir að Oddný G. Harðardóttir sagði af sér. Fyrir vikið þarf að kjósa nýjan varaformann.

„Fram undan eru spennandi tímar við endurreisn flokksins, undirbúning sveitarstjórnakosninga og pólitíska baráttu fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar. Ég óska eftir skýru umboði til að leiða þá vinnu með formanni flokksins,“ segir Heiða í framboðsyfirlýsingu.

„Verkefnin eru sannarlega ærin, andspænis afar hægrisinnaðri ríkisstjórn og sundraðri hreyfingu jafnaðarmanna. Engu að síður tel ég fullt tilefni til bjartsýni, enda býr Samfylkingin yfir miklum mannauði og jafnaðarstefnan á brýnt erindi, nú sem fyrr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert