Fengu símtal rétt fyrir flugtak

Meisam var komin um borð þegar WOW air barst símtal …
Meisam var komin um borð þegar WOW air barst símtal frá bandaríska landamæraeftirlitinu um hann fengi ekki að koma til Bandaríkjanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Meisam Rafiei er eini íslenski ríkisborgarinn sem stöðvaður hefur verið á leið sinni til Bandaríkjanna með WOW air eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði tilskipun sem bannar ríkisborgurum 7 múslimaríkja að koma til landsins. Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í samtali við mbl.is.

Mbl.is greindi frá því í gær að taekwondo meistaranum Mei­sam Rafiei, sem er með tvöfaldan íslenskan og íranskan ríkisborgararétt, hefði verið vísað frá borði úr flugvél WOW air á leið til Bandaríkjanna í gær.

Frétt mbl.is: Fluttur frá borði á síðustu stundu

Á bilinu 6-7 manns höfðu hins vegar samband  við þjónustver WOW air í gær með fyrirspurn vegna sambærilegra vafaatriða. „Þetta var allt fólk sem var búsett í Evrópu, en var á leið til Bandaríkjanna með millilendingu hér,“ segir Svanhvít. „Mál Meisam er þó eina tilfellið þar sem um var að ræða íslenskan ríkisborgara með tvöfalt ríkisfang.“ Hún segir WOW air endurgreiða miðaðverðið öllum þeim sem nú hefur verið gert óheimilt að ferðast til Bandaríkjanna.

Svanhvít segir starfsfólk WOW air í Leifstöð hafa verið allt af vilja gert til að aðstoða Meisam. Þannig hafi verið haft samband við bandaríska landamæraeftirlitið, US Customs and Border Protection (CBP),  sem er undirstofnun bandaríska heimavarnareftirlitsins, Homeland Security, sem fer yfir alla farþegalista áður en flogið er til Bandaríkjanna.

Fyrstu svörin hafi verið að Meisam gæti ferðast til Bandaríkjanna af því að hann væri með íslenskt ríkisfang og því hafi hann fengið sitt brottfararspjald og verið komin um borð. „Síðan fengum við símtal frá þessari sömu stofnun nokkrum mínútum áður en vélin fór í loftið um að þessum farþega yrði ekki hleypt inn í landið.“

Geta misst flugrekstarleyfið fyrir að brjóta bandarísk lög

Það er á ábyrgð flugfélaganna að farþegar  fá ríkjunum sjö komi ekki til Bandaríkjanna. Svanhvít segir WOW air, líkt og önnur flugfélög, hafa fengið senda lagatilskipun frá Homeland Securities þessa efnis.  Brot á lögunum geti auk hárra sekta, kostað flugfélög flugrekstrarleyfi sitt í Bandaríkjunum.

„Það hefði mögulega þurft að snúa flugvélinni við og þá gæti slíkt brot líka haft áhrif á flugrekstrarleyfi okkar til Bandaríkjanna. Við gætum misst það fyrir að brjóta lög í þeirra lofthelgi,“ segir Svanhvít.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert