„Einhver undarleg söguskýring“

Bjarni Benediktsson að loknum fundi ríkisstjórnar fyrir hádegi.
Bjarni Benediktsson að loknum fundi ríkisstjórnar fyrir hádegi. mbl.is/Golli

„Það gerist því miður af og til, að mál eru of lengi í vinnslu, og mér sýnist þetta mál hafa tekið of langan tíma. Það breytir því ekki að fjármála- og efnahagsráðuneytið kom frá sér alveg ótrúlegum fjölda af skýrslum og svörum við fyrirspurnum frá Alþingi á síðasta kjörtímabili, óvenju mörgum slíkum.

Um þetta tiltekna mál, það var svo sannarlega engin ástæða fyrir ríkisstjórnina til að halda frá fólki einhverjum upplýsingum um áhrif leiðréttingarinnar.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, spurður af hverju skýrsla um áhrif leiðréttingarinnar hafi ekki verið birt fyrr en í janúar, þegar vinnu við hana lauk um miðjan október í fyrra.

Fyrstu efnisgrein skýrslunnar var bætt við hana eftir áramót, og var hún í framhaldinu birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 18. janúar. Þetta er önn­ur skýrsl­an sem búið var að vinna í fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu fyr­ir síðustu kosn­ing­ar sem var ekki birt op­in­ber­lega fyrr en í janú­ar 2017.

Frétt mbl.is: Skýrslan var tilbúin fyrir kosningar 

Oddný Harðardóttir gagnrýndi vinnubrögð forsætisráðherra.
Oddný Harðardóttir gagnrýndi vinnubrögð forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétt að birta niðurstöðuna nú

Bendir Bjarni á að ríkisstjórn síðasta kjörtímabils hafi sjálf haft frumkvæði að því að koma skýrslum um málið í þingið.

„Við komum upp sérstöku vefsvæði fyrir fólk til þess að skoða hvert fyrir sig, og höfum sömuleiðis áður birt skýrslu um þessi mál. En það er miður að það skyldi hafa tekið þetta langan tíma, og á hinn bóginn líka rétt hjá ráðuneytinu að birta niðurstöðuna nú, jafnvel þótt fyrirspurnin hafi fallið dauð niður við lok kjörtímabilsins.“

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þá staðreynd að skýrslan hafi ekki verið birt fyrr en að loknum kosningum. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er ein þeirra sem talað hafa gegn þessu.

„Mér líður eins og hæst­virt­ur for­sæt­is­ráðherra hafi snúið á þingið, og á þjóðina,“ sagði hún í pontu Alþingis á þriðjudag. „Þekk­ing er vald, og það að halda eft­ir upp­lýs­ing­um, er að mis­nota það vald,“ sagði þá Ein­ar Brynj­ólfs­son, þingmaður Pírata.

Frétt mbl.is: Forsætisráðherra „snúið á þjóðina“

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu leiðréttinguna í nóvember …
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu leiðréttinguna í nóvember árið 2014. mbl.is/Kristinn

Ríkisstjórnin stolt af leiðréttingunni

Spurður hvernig hann bregðist við gagnrýni stjórnarandstöðunnar segir Bjarni:

„Ég harma það að það skuli hafa tekið þetta langan tíma að svara þessari tilteknu fyrirspurn. Mér finnst í sjálfu sér slæmt að það skyldi hafa verið þannig.

En að reyna að halda því fram, að ríkisstjórnin hafi ekki viljað ræða leiðréttinguna, sem var eitt stærsta loforð síðustu ríkisstjórnar og um leið eitt af því sem hún var stolt af, það er einhver undarleg söguskýring.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert