„Svona lagað gerðist aldrei“

Fjöldi kom saman til að minnast Birnu og votta virðingu …
Fjöldi kom saman til að minnast Birnu og votta virðingu sína í miðbænum í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Guðberg Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir við breska dagblaðið The Independent að maðurinn, sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, hafi þrifið bílinn sem hann hafði á leigu við komu á höfnina skömmu fyrir hádegi á laugardeginum.

Þá er haft eftir honum að hinn maðurinn, sem nú hefur verið sleppt úr haldi, hafi ekki verið í bílnum þegar þeir atburðir, sem leiddu til andláts Birnu, áttu sér stað.

„Við höfum ekki enn fengið lokaskýrslu réttarmeinafræðingsins, en það lítur út fyrir að Birna hafi farið um borð í bílinn [á Laugavegi], sem þýðir að það var hún og þessir tveir menn í bílnum.

Ljóst er að eitthvað hefur skolast til í þýðingu blaðsins, þar sem sagt er að bílnum hafi verið keyrt að hafnarsvæðinu við Hallgrímskirkju. Er þar að öllum líkindum átt við Hafnarfjörð.

„Ekki eitthvað sem gerist hérna“

„Annar mannanna, mjög ölvaður, fór þá út úr bílnum og um borð í skipið,“ er haft eftir Einari.

„Birna og hinn maðurinn fara þá á brott, og þá höfum við fjögurra tíma gat þar sem við náum ekki að finna út hvert þau fóru. Maðurinn kemur svo aftur án Birnu, og við sjáum hann á eftirlitsmyndavélum þrífa bílinn. Hann skilar honum síðan á bílaleiguna og fer um borð í skipið, sem yfirgefur höfnina síðar um kvöldið.“

Ríkisútvarpið hefur greint frá því að dánarorsök Birnu er talin hafa verið drukknun, þar sem krufning hafi sýnt vatn í lungum hennar.

Einar gat ekki staðfest þetta í viðtalinu við Independent. Hann sagði málið þó fordæmalaust.

„Svona lagað gerðist aldrei. Á öllu Íslandi eru aðeins í kringum tvö morð á ári. Við höfum haft mannshvörf, en ekkert eins og þetta, þar sem ókunnugur tekur annan ókunnugan um borð í bíl, keyrir í burtu og gerir eitthvað, og myrðir síðan manneskjuna og hendir líkinu í hafið. Það er ekki eitthvað sem gerist hérna.“

Umfjöllun The Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert