„Ekki skýrsla um vont fólk eða illsku“

Frá Kópavogshæli.
Frá Kópavogshæli. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Skýrsla vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli er ekki skýrsla um vont fólk eða illsku, heldur er hún fyrst og fremst skýrsla um aðbúnað, aðstæður, tíðaranda og menningu og hvernig litið var á fatlað fólk, þar með talin börn. Þetta segir Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þroskahjálpar. „Aðstæður og aðbúnaður buðu upp á að rækta ákveðna menningu, sem gekk út á að það væri ekki sjálfgefið að bera sambærilega virðingu fyrir öllu fólki.“

Samtökin Þroskahjálp báðu fyrst um að slík skýrsla yrði unnin árið 2008 þegar Friðrik var framkvæmdastjóri þeirra. „Það var í kjölfar skýrslu um starfsemi Breiðuvíkurheimilisins og okkur þótti eðlilegt, að ef samfélagið vildi gera upp fortíðina varðandi vistun barna, þá næði það einnig til fatlaðra barna,“ segir Friðrik.

Friðrik Sigurðsson.
Friðrik Sigurðsson.

Hann hefur starfað innan þessa málaflokks frá árinu 1973 og vann á Kópavogshæli árin 1975-'78. Spurður hvort hann myndi lýsa aðstæðum þar á sama hátt og gert er í skýrslunni segir hann svo vera að mestu leyti. „En ég varð ekki vitni að ofbeldi gagnvart börnum. Sá hluti skýrslunnar kom mér á óvart, eins og líklega flestum, ég held að enginn hafi búist við þessu.“ Hann segist hafa upplifað eitt og annað sem betur hefði mátt fara og nefnir þar sérstaklega skort á eftirliti með starfseminni. „Það var lítið eftirlit með gæðum og engin viðmið um hvað væri boðlegt. En það má ekki gleymast að þarna var fullt af góðu fólki sem vildi gera vel, margir unnu frábært starf á barnadeildunum, margir gerðu miklu meira en þeir fengu borgað fyrir.“

Lögin breyttu miklu

Friðrik segir að áður fyrr hafi fáar bjargir staðið foreldrum fatlaðra barna til boða. Eina þjónustan hafi verið í tengslum við vistun á skilgreindum sjúkrastofnunum á borð við Kópavogshæli. Hann segir að lög um þroskahefta, sem svo nefndust og voru sett voru árið 1979, hafi breytt miklu í aðbúnaði fatlaðra barna. „Þá var í fyrsta skiptið innleidd sú stefna að foreldrum fatlaðra barna væri gert kleift að ala börn sín upp heima. Með þessum lögum komu t.d. skammtímavistanir, umönnunargreiðslur og stuðningsfjölskyldur. Þarna var viðurkennt að uppeldi fatlaðs barns fylgir auka umönnun.“

Frá Kópavogshæli.
Frá Kópavogshæli.

„Vonandi verður þessi skýrsla og umræðan um hana til þess að við tryggjum það að fullu að allt fólk sé jafnrétthátt, án tillits til fötlunar,“ svarar Friðrik, spurður hvaða áhrif hann telji að útkoma skýrslunnar muni hafa á viðhorf til fatlaðs fólks. „Fyrst við fórum í þessa vegferð að gera upp þessa fortíð okkar gagnvart börnum sem einhverra hluta vegna ólust upp annars staðar en í foreldrahúsum, þá er nauðsynlegt að hafa af því góða heildarmynd. Við eigum að rýna í þessa skýrslu og ég vona að umræðan fari ekki niður á það stig að þarna hafi verið illt fólk, það er alltof auðveld afgreiðsla á erfiðu máli. Við verðum að geta notað þetta til góðs.“

Úr skýrslu
vistheimilanefndar
» Ljóst er að börn sem vistuð voru á fullorðinsdeildum Kópavogshælis hafi í verulegum mæli þurft að sæta líkamlegu og andlegu ofbeldi meðan á vistun stóð.
» Þannig hafi komið fyrir að börn væru lokuð inni, til dæmis á nóttunni, læst frammi á gangi, bundin í rúm eða stól og sett í svokölluð kot.
» Á barnadeildum var skortur á markvissum og reglubundnum greiningum á þroska og færni barnanna, svo og skortur á áætlunum um fullnægjandi alhliða þjálfun og menntun í víðum skilningi í samræmi við þarfir hvers og eins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert