Sögulegur blaðamannafundur

Við borðsendann er þýski sakamálasérfræðingurinn Karl Schütz og við hlið …
Við borðsendann er þýski sakamálasérfræðingurinn Karl Schütz og við hlið hans er Pétur Eggerz sendiherra, sem var túlkur. Fyrir miðri mynd má sjá greinarhöfund, blaðamann Morgunblaðsins, ræða við Halldór Þorbjörnsson yfirsakadómara. Gögn málsins eru á veggjum mbl.is/Friðþjófur Helgason

Hinn 2. febrúar síðastliðinn voru 40 ár liðin frá einum frægasta blaðamannafundi sem haldinn hefur verið á Íslandi. Á fundinum gerði þýski lögregluforinginn Karl Schütz grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem hann og íslenskir lögreglumenn höfðu unnið á hvarfi Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar. Niðurstöður vinnu þeirra varð grundvöllur saksóknar og dóma í þessu frægasta sakamáli seinni ára á Íslandi.

Höfundur þessarar greinar sat blaðamannfundinn fyrir hönd Morgunblaðsins og rifjar hann upp á þessum tímamótum. Þetta er einn eftirminnilegasti fundurinn sem höfundur hefur setið á löngum ferli.

Upphaflega var fundurinn boðaður 1. febrúar 1977 í sakadómi Reykjavíkur sem þá var starfandi í Borgartúni 7 í Reykjavík. Sakadómur annaðist bæði rannsóknir afbrota og dæmdi í sakamálum. Síðar var fyrirkomulaginu breytt og rannsóknir og dómsvald aðskilið.

Fjallað um endurupptöku Geirfinnsmálsins. Erla Bolladóttir ásamt tökumanni í Héraðsdómi …
Fjallað um endurupptöku Geirfinnsmálsins. Erla Bolladóttir ásamt tökumanni í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra, en BBC er að gera mynd um málið. mbl.is/Árni Sæberg

Fundi frestað um einn dag

Síðan gerist það að fundinum er frestað til 2. febrúar og engin skýring var gefin á því. Síðar uppgötvuðu menn að sama dag, árið áður, það er 2. febrúar 1976, urðu heitar umræður á Alþingi Íslendinga um meint fjárhagsleg tengsl Framsóknarflokksins við veitingahúsið Klúbbinn. Kveikjan var m.a. grein í dagblaðinu Vísi þar sem ráðuneyti dómsmála var sakað um að hefta rannsókn Geirsfinnsmálsins. Sighvatur Björgvinsson hóf umræðuna en Ólafur Jóhannesson svaraði, en hann var þá dómsmálaráðherra. Ef menn vilja kynna sér betur þessar umræður er ítarlega sagt frá þeim í Morgunblaðinu 3. febrúar 1976. Blaðið má nálgast á timarit.is.

Við umræðurnar sagði Ólafur Jóhannesson þessa eftirminnilegu setningu. „Nú, ég hef nú ekki ætlað mér að nota þennan dag til þess að skjóta á þúfutittlinga.“ Var hann væntanlega að vísa til þess að 2. febrúar 1967 lést Guðbjartur sonur Ólafs eftir erfið veikindi, aðeins 19 ára gamall. Var það að undirlagi Ólafs að blaðamannfundinum var frestað um einn dag? Vildi hann að niðurstaða málsins yrði birt 2. febrúar? Margir voru þeirrar skoðunar en það fékkst aldrei staðfest.

En snúum okkur á blaðamannafundinum. Hann hófst síðdegis í fundarsal sakadóms í Borgartúni 7. Gögnum úr málinu hafði verið komið fyrir upp um alla veggi. Þá var hin fræga stytta Leirfinnur á fundarborðinu. Væntanlega hefur framkvæmd fundarins verið eins og tíðkaðist í Vestur-Þýskalandi en íslenskir blaðamenn höfðu ekki áður setið fund með svona „útlensku“ yfirbragði. Viðstaddir auk Karl Schütz voru Halldór Þorbjörnsson yfirsakadómari, sakadómsfulltrúar, rannsóknarlögreglumenn og aðrir þeir sem að rannsókninni höfðu komið. Karl Schütz hafði orðið á fundinum. Hann fór yfir málið og talaði hægt og rólega á þýsku. Pétur Eggerts sendiherra túlkaði yfir á íslensku. Blaðamannafundurinn var mjög langur og stóð í tvær og hálfa klukkustund. Á fundinum fengu blaðamenn ýmis gögn afhent, svo sem myndir af þeim einstaklingum sem voru viðriðnir málið. Blaðamannafundurinn hófst klukkan 17 og lauk ekki fyrr en um klukkan 19.30. Blaðamenn þurftu því að hafa snarar hendur til að gera efni fundarins skil í dagblöðunum sem komu út daginn eftir.

Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson.
Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. Samsett mynd

Ítarlega var sagt frá fundinum í Morgunblaðinu 3. febrúar.

Í frétt á baksíðu var niðurstaða rannsóknarinnar samandregin: „Rannsókn Geirfinnsmálsins er lokið og málið upplýst. Liggja fyrir játningar þriggja manna, þeirra Sævars Marinós Ciesielskis, Kristjáns Viðars Viðarssonar og Guðjóns Skarphéðinssonar um að þeir hafi orðið Geirfinni að bana í Dráttarbraut Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Þeir Sævar og Kristján hafa áður viðurkennt að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana í Hafnarfirði í janúar 1974. Á fundinum upplýsti þýzki sakamálasérfræðingurinn Karl Schütz að Geirfinnur hefði hitt Sævar og Kristján á dansleik í veitingahúsinu Klúbbnum að kvöldi sunnudagsins 17. nóvember 1974. Tóku Geirfinnur og Sævar tal saman og urðu ásáttir um að eiga viðskipti með spíra. Ákváðu þeir stefnumót, sem varð í Dráttarbraut Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember. Þar kom í ljós að fyrirhuguð viðskipti byggðust á misskilningi Sævars og Geirfinns. Kom til átaka sem lauk á þann veg, að Geirfinnur beið bana.“

Málið enn til umfjöllunar

Síðan þessi blaðamannafundur var haldinn eru liðin 40 ár og margt hefur gerst síðan í þessu margslungna og sögufræga sakamáli. Nú er að störfum nefnd sem skoðar endurupptöku málsins undir forystu Björns L. Bergssonar. Þá hefur Davíð Þór Björgvinsson verið settur saksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Er sannleikurinn kominn fram í þessu ótrúlega máli, á hann eftir koma fram eða kemur hann aldrei fram? Því er ósvarað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert