Rannsókn á lífsýnum ekki lokið

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur svo sem engin breyting verið þannig lagað,“ segir Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn við rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, í sam­tali við mbl.is. Ekki hefur verið ákveðið hvenær maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi vegna máls Birnu Brjánsdóttur verður næst yfirheyrður en gæsluvarðhald rennur út eftir fjóra daga.

„Það rennur út á fimmtudaginn þetta gæsluvarðhald sem hann var síðast dæmdur til þannig að við munum alveg örugglega yfirheyra hann núna á einhverjum dögum fram að því. En það hefur ekkert verið ákveðið í því,“ segir Grímur. Hann segir ljóst að rannsókn málsins verði ekki lokið fyrir þann tíma en segir ekkert hafa verið ákveðið í þeim efnum hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.

Lögregla átti jafnvel von á því að fá niðurstöður í síðustu viku úr rannsókn lífsýna úr munum sem voru um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq en svo varð ekki. „Við bjuggumst nú alveg eins við því í síðustu viku en það varð ekki,“ segir Grímur en býst hann þó við að niðurstöðurnar kunni að liggja fyrir í vikunni.

Spurður segir Grímur að ekki hafi nein ný gögn komið fram í tengslum við rannsóknina og ekki séu áform um frekari leit með hjálp björgunarsveita að vísbendingum. „Það er raunverulega bara verið að halda áfram að setja saman málið.“

Þá segir Grímur að ekki hafi komið til þess að þurft hafi að hafa samband við hinn skipverjann á Polar Nanoq, sem sætti gæsluvarðhaldi í tvær vikur vegna málsins en er nú laus úr haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert