Virðast treysta GPS betur en skiltum

Ferðamenn fastir á vegi F-907 upp af Jökuldal, rétt við …
Ferðamenn fastir á vegi F-907 upp af Jökuldal, rétt við Þverárvatn. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Snjóléttir vetur eins og í ár geta jafnvel reynst varasamari en snjóþungir vetur þegar kemur að því að ferðamenn keyri inn á lokaða fjallavegi og festi sig. Þegar minni snjór er reyna þeir frekar við lokuðu vegina og komast jafnvel talsvert lengra. Þá eru meiri líkur á að þeir séu komnir úr símasambandi sem getur gert aðstoð öllu erfiðari. Þetta segir Aðalsteinn Sigurðsson, bóndi á Vaðbrekku í Efri-Jökuldal.

Nýlega hefur hann þurft að aðstoða ferðamenn í tvö skipti, en þá höfðu þeir keyrt upp fjallveg F-907 og voru á leiðinni inn í Kverkfjöll og Öskju, um hávetur. Segir Aðalsteinn að oft sé hringt til hans frá bílaleigum vegna fastra bíla, en þá hafa þeir látið bílaleigurnar vita sem svo komi beiðni áfram til hans. Í öðrum tilvikum, eins og um daginn, þá hafi hann séð bílför upp F-907 fjallveginn og því ákveðið að athuga hvort einhver væri þar.

Hann hafi fljótlega komið að ferðamönnum á jepplingi og voru þeir fastir. Lágu þeir á fjórum fótum og reyndu að moka bílinn lausan með lítill pönnu sem þeir höfðu meðferðis.

Aðalsteinn segir að það sé lokunarskilti við Brú sem loki veginum til helmings og þar standi á íslensku að lokað sé, en „impassable“ á ensku. „Þeir virðast ekki átta sig á að þetta er lokað,“ segir hann og bætir við: „Þeir virðast treysta GPS betur en skiltum.“

„Það er ekkert mál að hjálpa, en bílaleigur þurfa að gera meiri ráðstafanir,“ segir Aðalsteinn. Hann hefur sjálfur tekið svona verkefni að sér í verktöku þegar bílaleigur hringja í hann og þá með þeim formerkjum að greitt verði fyrir verkið, en það endi með að ferðamennirnir geti venjulega aðeins greitt með korti.

„Það er heilmikið mál fyrir mig sem bónda úti í sveit að rukka fólk með korti,“ segir hann og bætir við að í flest skipti endi þetta með tapi fyrir sig. Hann eigi þó erfitt með að verða ekki við kallinu, enda fólk í vanda.

Segir hann réttast að bílaleigurnar bæti við klausu um rukkanir vegna vegaaðstoðar sem þessarar, enda sé það í flestum tilvikum bílaleigurnar sem kalli út verktakana og það myndi auðvelda alla innheimtu fyrir bændur sem standi í þessu í algjörum hjáverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert