Leiðrétting á leiðréttingu

Höfuðstöðvar 365.
Höfuðstöðvar 365. mbl.is/Ómar Óskarsson
Anna Guðlaug Nielsen, sérfræðingur viðskiptaþróunar og greiningar hjá 365 miðlum, skrifar leiðréttingu á leiðréttingu við grein forstjóra einkamiðla á Vísi, en þar leggur hún fram dæmi sem sýni að RÚV fari með fleipur í leiðréttingu sinni.

„Í vikunni birtist grein á vegum RÚV sem bar yfirskriftina „Leiðrétting við grein forstjóra einkamiðla sem birtist í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.“  Þar er fullyrt að rangt sé farið með staðreyndir.  Þessu er hafnað enda eru þau dæmi sem dregin eru fram öll studd rökum í grein forstjóranna.  

Ef ársreikningar frá 2015 eru skoðaðir frá helstu nágrannaþjóðum okkar, Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Bretland, sést greinilega að helsta tekjustreymið hjá þeim er ríkisframlög. Einnig styður EBU-skýrslan sem RÚV vísar til þá niðurstöðu en þar kemur fram að megintekjustreymi 25 af 45 EBU-ríkjum er ríkisfjármögnun,“ segir meðal annars í grein Önnu Guðlaugar en hana má lesa hér.

Leiðréttingin frá RÚV:

Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, hefur sent Morgunblaðinu eftirfarandi athugasemd:

„Á mánudaginn birtist í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu aðsend grein frá forstjórum nokkurra einkarekinna ljósvakamiðla: Útvarps Sögu, ÍNN, Sjónvarps Símans, 365 og Hringbrautar. Þar ítreka þeir fyrra ákall sitt um lagabreytingar til að styrkja stöðu fyrirtækja sinna á ljósvakamarkaði.

Í grein forstjóranna er farið rangt með um fjármögnun RÚV og annarra almannaþjónustumiðla í Evrópu. Skulu þær staðreyndavillur leiðréttar hér.

Í greininni er fullyrt að íslenska ríkið greiði „næsthæstu upphæð á hvern íbúa til síns ríkismiðils“. Þetta er alls ekki rétt og reyndar nokkuð langt frá hinu sanna, eins og sjá má ef skoðaðar eru opinberar tölur frá EBU (European Broadcasting Union). Staðreyndin er sú að ríki allra nágrannaríkjanna borga meira á hvern íbúa (per capita) með sínum ríkismiðli en Ísland gerir. Þannig er meira borgað á hvern íbúa með ríkismiðli Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og Bretlands en gert er á Íslandi, þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að íbúar hérlendis eru margfalt færri en þessara þjóða.

Í grein forstjóranna er því enn fremur haldið fram að Ríkisútvarpið sé eini almannaþjónustumiðillinn í Evrópu sem er fjármagnaður að hluta með auglýsingatekjum. Þetta er ekki rétt, því eins og fram kemur í samantekt EBU og í ársskýrslu fjölmiðlanefndar er blanda ríkisframlags og tekna af auglýsingum (eins og raunin er hjá RÚV) algengasta fyrirkomulag fjármögnunar hjá almannaþjónustumiðlum í Evrópu. Af 45 markaðssvæðum í Evrópu eru 36 með blandaða fjármögnun auglýsinga- og þjónustutekna. Í 18 þessara ríkja eru auglýsingatekjur meira en 10% af tekjum miðlanna.

Leiðréttist hvort tveggja hér með.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert