200 þúsund í sekt vegna barnakláms

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi á föstudaginn einstakling til að greiða 200 þúsund krónur í sekt fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslum sínum myndir og myndskeið af börnum sem sýnd voru á kynferðislegan og klámfenginn hátt eða sams konar myndir af einstaklingum sem voru orðnir 18 ára, sem voru í hlutverki barns.

Lögreglan hafði fengið upplýsingar um að einstaklingurinn væri með gróft barnaklám í tölvu sem hann ætti. Var tölvan haldlögð á heimili þess ákærða auk flakkara. Fannst efnið í tölvunni.

Fyrir dómi sagðist ákærði ekki kannast við efnið og sagðist hafa keypt tölvuna notaða af öðrum einstaklingi. Sagðist sá hafa „straujað“ tölvuna áður en hann seldi hana. Dómurinn taldi framburð ákærða ekki trúverðugan og taldist sannað að hann hefði framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert