Deiluaðilar risu undir ábyrgð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Eggert Jóhannesson

„Deiluaðilar risu undir þeirri ábyrgð sem þeim er falin. Samninganefndum sjómanna og útgerðanna má hrósa sérstaklega þess vegna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í kjölfar þess að sjómenn samþykktu samninga samninganefnda sjómanna og útgerða naumlega í atkvæðagreiðslu í kvöld.

Hún segir að mikilvægt sé að horfa fram á veginn, ekki velta því upp hvað sagt hafi verið, heldur að vinna úr niðurstöðunni til að treysta greinina enn frekar. 

Aðspurð segist hún hafa fundið fyrir þrýstingi í deilunni. „Ég varð fyrir alls konar þrýstingi en meginmálið er að halda línu og halda kúrs og vera í góðum samskiptum við deiluaðila. Sjá hvaða möguleikar eru á borðinu,“ segir Þorgerður Katrín.  

Málamiðlun sneri að fæði

Fram kom að ríkið lagði fram málamiðlunartillögu. „Innihaldið þar snerist m.a. um það að reyna að komast til móts sjómenn, með almennri nálgun. En það sem skiptir mestu er að úr þessu leystist. Útgerðarmenn komu inn í tillöguna og það varð til þess að samningsaðilar gætu náð aftur saman,“ segir Þorgerður.

Sneri tillagan að skattleysi fæðispeninga? „Sú tillaga snerti fæði. Ekki bara sjómanna heldur annarra þeirra sem vinna fjarri heimahögum í lengri tíma, en aðkoma útvegsmanna skipti hér sköpum,“ segir Þorgerður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert