„Tæpt á hvorn veginn sem það fer“

Skip við bryggju í Neskaupstað. Mynd úr safni.
Skip við bryggju í Neskaupstað. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Þriðji og síðasti kynningarfundur stéttarfélagsins Afls á kjarasamningi sjómanna hófst klukkan 16 í grunnskólanum í Neskaupstað. Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir aðsóknina góða á fundi þess í dag og í gær.

„Við erum búin að halda tvo aðra fundi og það hafa verið fullir salir í báðum tilvikum,“ segir Sverrir í samtali við mbl.is.

Bætir hann við að búist sé við að kjörsókn verði í kringum 70 prósent, en erfitt sé að segja það með vissu enda greiði sumir félagsmenn atkvæði sín annars staðar á landinu.

Félögin fá ekki að vita úrslit sinna kosninga

Sýslumaðurinn á Austurlandi mun telja atkvæði félagsmanna og senda niðurstöðuna til embættis ríkissáttasemjara, þar sem hún fer inn í heildarniðurstöður atkvæðagreiðslunnar á landsvísu. Þannig verður ekki gerð grein fyrir niðurstöðum hvers félags fyrir sig.

„Við fáum aldrei að vita hvernig þetta fór hjá okkur,“ segir Sverrir.

Spurður hvort hann telji að samningurinn verði samþykktur segir hann að tvísýnt sé um það.

„Hann var mjög harður fundurinn á Reyðarfirði. Talsvert um að menn væru ekki sáttir. En hvað kemur upp úr kassanum, það vitum við aldrei.“

Býstu við því að samningurinn verði jafnvel felldur?

„Yfir landið? Ég á ekki von á því. En það verður tæpt, á hvorn veginn sem það fer, miðað við það sem maður heyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert