Vilja verða alþjóðlegt fyrirtæki

Styrmir Elí Ingólfsson og Viktor Haglín Magnason í fyrstu útskriftarferðinni …
Styrmir Elí Ingólfsson og Viktor Haglín Magnason í fyrstu útskriftarferðinni sem þeir skipulögðu Í Búlgaríu.

Félagarnir Snorri Björnsson og Sveinn Breki Hróbjartsson lögðu af stað á fimmtudaginn í átta daga heimsreisu á 200 klukkustundum. Þeir heimsækja allar heimsálfur nema Suður-Ameríku og fara á 13 áfangastaði. Markmið ferðarinnar er að sýna hvernig hægt er að ferðast um heiminn á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt.

Hægt verður að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum á Snapchat og Instagram undir: snorribjorns og á bloggsíðunni blogg.tripical.is. Ferðalagið er á vegum íslensku ferðaskrifstofunnar tripicaltravel.  

Ferðast á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt

„Við erum fyrst og fremst sýna hvernig hægt er að ferðast um heiminn á fjölbreyttan hátt en heimurinn minnkar smátt og smátt. Við viljum vera skemmtileg og lifandi í ferðaþjónustunni,“ segir Styrmir Elí Ingólfsson einn þriggja eigenda ferðaskrifstofunnar Tripical. Meðeigendur hans eru skólafélagi hans úr Verslunarskóla Íslands, Viktor Hagalín Magnason, og móðir Viktors, Elísabet Hagalín.

Þessi unga kynslóð þekkir notkun samfélagsmiðla vel sem hægt er að nýta vel í markaðssetningu,“ segir Elísabet og bendir á að þeir nái vel til ungu kynslóðarinnar enda nálægt henni í aldri. Hún hefur áratuga reynslu úr ferðaþjónustunni og lærði meðal annars ferðamannafræði í Noregi. Hún hefur talsvert tekið á móti erlendum ferðamönnum á Íslandi og einnig farið með ótal hópa til Austur-Evrópu.   

Viktor og Elísabet Hagalín, eigendur ferðaskrifstofunnar.
Viktor og Elísabet Hagalín, eigendur ferðaskrifstofunnar.

Stofnuðu fyrirtækið eftir útskriftarferð

Þess má geta að félagarnir tveir útskrifuðust úr Versló síðasta vor og stofnuðu fyrirtækið fljótlega eftir það og því rétt skriðnir yfir tvítugt. Ferðaþjónustufyrirtækið skipulegggur fjölbreyttar hópferðir til hinna ýmsu landa en Austur-Evrópa og Asía eru í brennidepli. Fjölmennasti hópurinn sem sækir í ferðir með þeim eru nemar í framhalds- og menntaskóla sem fara í útskriftaferðir. Á þessu ári fara um þúsund nemar í útskriftarferð með Tripicaltravel og er mesti vöxturinn í þessum hópferðum ferðaskrifstofunnar. 

Hugmyndin að stofnun fyrirtækisins fæddist einmitt hjá þeim félögum þegar þeir voru sjálfir í útskriftarferð. Elísabet hafði keypt lénið tripicaltravel.com nokkru áður og úr varð að þau þrjú stofnuðu fyrirtækið. Næsta skref er að opna skrifstofu í Borgartúninu. „Þetta er mikill stökkpallur fyrir okkur. Það hefur verið strembið en mjög skemmtilegt að koma fyrirtækinu upp. Byggja upp traust, kynna sig og fá fólk til að átta sig á því hver við erum og hvað við erum að gera,“ segir Styrmir. Hann segir mikið frelsi fylgja því að vinna fyrir sjálfan sig en á móti kemur að „maður er alltaf í vinnunni,“ segir hann og brosir. 

Stefna að því að verða alþjóðlegt fyrirtæki

Styrmir segir að eitt af markmiðum þeirra sé að nálgast ferðaheiminn og markaðinn á annan hátt. „Við viljum miðla ævintýrum til annarra og koma fólki á óvart,“ segir hann. Þrátt fyrir að stór hluti þeirra sem nýta sér þjónustu fyrirtækisins séu Íslendingar er markmiðið að verða alþjóðlegt fyrirtæki sem sér um að skipuleggja hópferðir um allan heim sem ekki eru bundnar við Ísland. Eins og fyrr segir eru flestar ferðir til landa í Austur-Evrópu og Asíu og boðið er m.a. upp á jógaferðir, hjólaferðir og hvers kyns ævintýraferðir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert