Afhjúpaði merki til heiðurs Louisu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði menningarmerki til heiður Louisu við …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði menningarmerki til heiður Louisu við Höfða í dag. mbl.is/Árni Sæberg

100 ár eru í dag liðin frá fæðingu myndlistakonunnar Louisu Matthíasdóttur og í tilefni dagsins afhjúpaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri menningarmerki til heiðurs Louisu við Höfða. Þá undirbýr Listasafn Reykjavíkur nú viðamikla yfirlitssýningu á verkum Louisu en sýningin verður opnuð 6. maí næstkomandi í vestursal Kjarvalsstaða.

Louisa fæddist 20. febrúar 1917 en foreldrar hennar voru þau Matthías Einarsson læknir og Ellen Einarsson. Fjölskyldan flutti í Höfða árið 1924 og bjó þar til ársins 1937. 

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að Louisa hafi snemma verið byrjuð að teikna og mála. Hún hafi þá eignast „félaga í hópi ungs fólks sem hittist gjarnan í Unuhúsi, en þar var athvarf skálda og listamanna í Reykjavík á fyrri hluta tuttugustu aldar.“

Louisa flutti til Danmerkur árið 1934 þar sem hún var við listnám í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn til ársins 1936. Þá flutti hún aftur til Íslands en ári síðan fór hún til náms í París. Árið 1942 fór Louisa til New York til frekara myndlistarnáms og þar kynntist hún eiginmanni sínum og listmálaranum Leland Bell.

Louisa og Leland giftu sig í New York árið 1944 og eignuðust dótturina Temmu Bell ári síðar. Fjölskyldan settist að í New York og þar vakti Louisa athygli fyrir málverk sem fönguðu nærumhverfi hennar „á einstaklega næman hátt“.

„Í áraraðir sýndi Louisa ekki mikið hér á landi en árið 1993 var efnt til sýningar á verkum hennar á Kjarvalsstöðum og hún var einnig meðal 28 íslenskra listamanna sem áttu verk á sýningunni íslensk málverk á 20. öld í Hong Kong og síðar í Peking árið 1998. Hún átti einnig verk á sýningu tólf kvenna í Norræna húsinu árið 1998 og það sama ár var fyrsta sýningin á pastelmyndum hennar í Hafnarborg í Hafnarfirði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert