Þriðjungur þekkir stjórnarsáttmálann

Karlar eru ánægðari með innihald sáttmálans en konur.
Karlar eru ánægðari með innihald sáttmálans en konur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæplega þriðjungur telur sig þekkja innihald stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar vel, 37% telja sig hvorki þekkja það vel né illa og um þrír af hverjum tíu telja sig þekkja það illa. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallups.

Karlar telja sig frekar en konur þekkja það vel og munur virðist á þekkingu fólks eftir aldri. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi telja sig frekar þekkja innihald sáttmálans vel en þeir sem hafa minni menntun að baki og munur mælist eftir fjölskyldutekjum. Þeir sem myndu kjósa Viðreisn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri en þeir sem kysu aðra flokka til að telja sig þekkja innihald stjórnarsáttmálans vel. 

Þeir sem þekktu eitthvað til innihalds stjórnarsáttmálans voru spurðir um viðhorf sitt til þess en ekki virðist mikil ánægja með sáttmálann. Ríflega 15% tóku ekki afstöðu en af þeim sem gerðu það eru fjórir af hverjum tíu óánægðir með innihald hans, nær 38% hvorki ánægð né óánægð en rúm 22% ánægð. 

Karlar eru ánægðari með innihald sáttmálans en konur og munur mælist á ánægju með hann eftir aldri. Um 56% þeirra sem styðja ríkisstjórnina eru ánægð með innihald sáttmálans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert