Von á „sýnishorni af vetri“ í vikunni

Búast má við vestanstrekkingi, 8-15 m/s á landinu í dag, en þó má gera ráð fyrir að yfirleitt verði hægari vindur norðanlands. Víða má búast við snjóéljum og verður hiti um frostmark. Þegar nær dregur ströndinni á sunnanverðu landinu er hins vegar hlýrra og verður úrkoman þar á formi rigningarskúra að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Í kvöld á síðan að draga úr vindi og úrkomu. 

Í fyrramálið verður lægð skammt sunnan við land. Henni fylgir allhvöss austanátt sunnanlands með slyddu eða snjókomu. Úrkoman færist síðan yfir á austanvert landið þegar líður á daginn og verður vindur þá norðlægari. Á Vesturlandi rofar til og gæti sést til sólar, sem verður að teljast tilbreyting frá þokunni sem var um helgina. 

Veðurvefur mbl.is

Á miðvikudag og fimmtudag gera spár ráð fyrir að austlæg átt verði ríkjandi. Þá megi búast við að eitthvað snjói í flestum landshlutum og hiti verði neðan frostmarks. „Það er semsagt útlit fyrir að við fáum sýnishorn af vetri í þessari viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Seinnipartinn á föstudaginn gengur síðan væntanlega í suðaustanstorm og líklega hlýnar nægilega mikið til að á föstudagskvöldið verði slagveðursrigning sunnanlands, en þá gæti verið hríð í öðrum landshlutum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert