Biðlistar lengjast vegna handavinnu lækna

Björn Guðbjörnsson, gigtarlæknir og prófessor við læknadeild HÍ, segir þörf …
Björn Guðbjörnsson, gigtarlæknir og prófessor við læknadeild HÍ, segir þörf á samtengdu rafrænu skráningarkerfi fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. mbl.is/Eggert

Þekkingu sérfræðilækna má nýta með mun skilvirkari hætti en gert er í dag. Þetta kom fram í máli Björns Guðbjörnssonar, gigtarlæknis og prófessors við læknadeild Háskóla Íslands, á heil­brigðisráðstefnu um hug­ræna tölv­un og áhrif henn­ar á heil­brigðis­kerfi framtíðar­inn­ar sem hald­in var á Grand hót­eli í dag.

Sagði Björn ýmsa handavinnu sem læknar þurfi að sinna í dag eiga sinn þátt í því að biðlistar lengist. Skráning og öflun margvíslegra upplýsinga, sem ekki krefjist endilega sérfræðiþekkingar, komi í veg fyrir að læknar geti sinnt fleiri sjúklingum.

Rakti Björn máli sínu til stuðnings ferlið í kringum læknisheimsókn gigtarsjúklings, þar sem lækninum er gert að kalla eftir blóðprufum og ýmsum gögnum og sjá um skráningu atriða sem vel væri hægt sinna fyrir læknisheimsóknina. Heimsókn sem hefði undir öðrum kringumstæðum geta verið mjög stutt verði hins vegar fyrir vikið tæplega hálftíma löng og þar með fækki þeim sjúklingum sem læknirinn geti sinnt.

Óska eftir sömu upplýsingunum aftur og aftur

Skortur á samtengdu rafrænu skráningakerfi felur að sögn Björns sömuleiðis í sér að læknar eru að óska eftir sömu upplýsingunum aftur og aftur.  „Ég fékk til að mynda um daginn til mín sjúkling sem var að sjá sinn fimmta gigtarlækni. Allir höfðum við spurt hann sömu spurninga, tekið blóðprufur og gengið í gegnum sama ferli,“ sagði Björn. Ástæðan er að hans mati m.a. skortur á samtengdu rafrænu skráningakerfi.

Öflugt hugbúnaðarkerfi myndi þess vegna bæta heilbrigðisþjónustuna hér á landi töluvert.

„Þörfin fyrir betra heilbrigðiskrefi fer vaxandi og hún mun aukast enn frekar eftir því sem við eldumst og læknum fjölgar ekki í takt við þessa þörf,“ sagði Björn og kvað sambærilegan vanda blasa við fleiri þjóðum. „Tíminn sem fer í sjúklingaþjónustu dregst þess vegna saman.“ 

Á ekki að skipta máli hver læknirinn er

Sagði Björn þennan veruleika kalla á breytt verklag. Með því að tryggja notkun hugrænnar tölvunar í heilbrigðiskerfinu megi til að mynda auka vinnsluhraðann og bæta þá meðferð sem sjúklingar fái.

Þá þurfi sömuleiðis að virkja sjúklinga betur við að skrá inn upplýsingar sínar. „Það getur flýtt fyrir sjúkdómsgreiningu ef sjúklingur er búinn að forskrá upplýsingar sínar þannig að þær liggi fyrir þegar hann kemur til sérfræðingsins,“ sagði Björn og bætti við að einnig mætti skoða að innleiða fjarlækningar og bæta upplýsingamagnið sem meðferðarákvarðanir byggi á.

„Það á ekki að skipta máli til hvaða læknis sjúklingur með erfiðan sjúkdóm kemur, hann á að fá sömu meðferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert