Afnám einkaleyfis en ekki aukið aðgengi

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki geta stutt áfengisfrumvarpið eins og það hefur verið sett fram. Engu að síður styður hann að einkaleyfi ríkisins til sölu áfengis verði afnumið.

„Það er best að segja það strax að ég styð það að einkaleyfi ríkisins til sölu á áfengi verði afnumið. Ef frumvarpið fjallaði bara um það þá myndi ég líka ljá því stuðning minn. En frumvarpið fjallar ekki bara um það. Það felur í sér stóraukið aðgengi að áfengi og þar stendur hnífurinn í kúnni,“ sagði Páll í jómfrúræðu sinni á Alþingi í fyrstu umræðu um áfengisfrumvarpið.

Hann sagði það beinlínis rangt sem kemur fram í upphafi greinargerðarinnar með frumvarpinu. Þar segir að lagðar séu til eins litlar breytingar á lagaumhverfi áfengis og tóbakssölu og mögulegt sé miðað við það markmið að smásala áfengis verði frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Á móti auglýsingum 

„Þetta er ekki rétt. Ef það væri rétt þá fjallaði frumvarpið bara um það að selja áfengisverslanir á vegum ríkisins. Þá héldu sér allar aðrar reglur, takmarkanir og viðmiðanir en þær. Þá væri ekkert gert annað en að selja þessar verslanir og koma þeim í einkaeigu,“ greindi hann frá.

Páll sagði að frumvarpið fjallaði þess í stað um margt annað, þar á meðal að afgreiðslutími yrði stórlengdur, selja mætti áfengi frá 9 á morgnana til miðnættis í öllum matvöruverslunum sem uppfylla réttu skilyrðin. Einnig að heimila skuli auglýsingar á áfengi. „Allt þetta sem snýr að frumvarpinu annað heldur en einkasala ríkisins veldur því að ég get ekki stutt það eins og það stendur.“

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Vafasöm staðhæfing

Páll sagði þá staðhæfingu í greinargerðinni  vafasama að ekki hefði verið sýnt fram á að varanlegt orsakasamhengi væri á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu. Hann sagðist hafa flett upp rannsóknum sem vísað hefði verið til, þar á meðal yfirlit frá landlækni um sambærilegt frumvarp í fyrra þar sem vísað væri til tuga vísindarannsókna.

„Ég fletti upp á niðurstöðum margra þeirra og þær voru nánast allar samhljóða, að það væri beint orsakasamhengi á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu. Það sem meira er, neyslan jókst í öllum hópum áfengisneytenda, bæði hjá þeim sem fóru hóflega með áfengi en hún jókst mest hjá ungu fólki og áfengissjúklingum,“ sagði hann.

Umhyggja en ekki forræðishyggja

Hann sagðist mögulega styðja frumvarpið en það myndi breytast í meðförum nefndar. Þangað til geti  hann ekki stutt það. „Ég vil leyfa mér að halda því fram að í þeirri afstöðu minni felist fremur umhyggja en forræðishyggja.“

Skýtur skökku við 

Viktor Orri Valgarðsson, Pírarati, veitti Páli andsvar og kvaðst styðja málið af prinsippástæðum. Hann sagði það mjög líklegt að frjáls sala áfengis mundi auka aðgengi, hvernig sem salan yrði útfærð. „Þess vegna skýtur skökku við að segjast vera fylgjandi því í prinsippinu að leyfa frjálsa sölu áfengis en geta ekki stutt eitthvað sem gæti aukið aðgengi.“

Því svaraði Páll: „Ég gæti vel séð fyrir mér frumvarp í þessa veru sem fæli í sér afnám ríkisins til að selja áfengi, ef hægt væri að sannfæra mig um að í því fælist ekki aukið aðgengi. Það væri einfaldasta lausnin að einkaleyfið væri bara afnumið en aðrar takmarkanir yrðu áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert