Mál Tryggva og Sævars endurupptekin

Tryggvi Rúnar Leifsson, lengst til hægri, fyrir utan húsnæði sakadóms …
Tryggvi Rúnar Leifsson, lengst til hægri, fyrir utan húsnæði sakadóms Reykjavíkur á áttunda áratugnum. Hann hlaut þrettán ára fangelsisdóm.

Endurupptökunefnd mælir með endurupptöku á málum Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Ciesi­elskis. Tryggvi var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að bana Guðmundi Einarssyni. Sævar hlaut sautján ár dóm fyrir að bana Guðmundi sem og Geirfinni Einarssyni. Nefndin mun í dag birta sex úrskurði um þá sem sakfelldir voru í tengslum við málin tvö.

 Þetta hefur fréttastofa RÚV eftir dóttur Tryggva. Tryggvi lést árið 2009.

Nefndin mun í dag birta sex úrskurði um þá sem sakfelldir voru í tengslum við mál Guðmundar og Geirfinns Einarssonar.

RÚV hefur eftir Kristínu Önnu Tryggvadóttur að niðurstaða nefndarinnar sé jákvæð sem þýði að hún mæli með endurupptöku.

Ekki hægt að dæma Tryggva aftur

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður endurupptökubeiðendanna Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, sagðist í Morgunblaðinu í dag tekja einsýnt að niðurstaða endurupptökunefndar verði sú að heimila endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti. Honum finnst öll rök hníga í þá átt.

„Ákveði nefndin að tilefni sé til endurupptöku, þá leggur ákæruvaldið, í þessu tilfelli settur ríkissaksóknari, málið fyrir Hæstarétt aftur á grundvelli sömu ákæru, að því viðbættu að það eru komin ný skjöl í málið,“ sagði Ragnar. 

Ragnar sagði að saksóknari gæti gert kröfur. „Hann getur krafist þess að sexmenningarnir verði sakfelldir fyrir mannshvörfin og rangar sakargiftir, en endurupptakan snýr eingöngu að þeim atriðum, ekki að póstsvikum eða innflutningi á fíkniefnum. Ef saksóknari gerir það, þá þarf hann auðvitað að sanna upp á nýtt sekt þessara sakborninga.

Ragnar segir að komi til endurupptöku verði hver sexmenninganna með sinn eða sína verjendur, en bendir um leið á að þeir Sævar Ciesielski og Tryggvi Leifsson eru látnir, þannig að ekki sé hægt að dæma þá upp á nýtt.

Saksóknari getur líka ákveðið að krefjast sýknu af mannshvörfunum og röngum sakargiftum, og þá er dómstóllinn bundinn af þeirri kröfu,“ sagði Ragnar.

mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert