70-80 björgunarsveitamenn að störfum

Um 70-80 björgunarsveitarmenn sinna nú verkefnum vegna mikils snjóþunga. Mynd …
Um 70-80 björgunarsveitarmenn sinna nú verkefnum vegna mikils snjóþunga. Mynd úr safni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta eru svona 70-80 manns hérna, Akranes, lands- og höfuðborgarsvæðið,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Mikil ófærð er á höfuðborgarsvæðinu og víðar og hafa björgunarsveitir verið á ferli til að aðstoða þá sem mest þurfa á að halda. Að sögn Jónasar hafa störf björgunarsveita gengið mjög vel nú í morgun. 

„Til þess að sinna lokunum á Hellisheiði, Þrengslum, Kjalarnesi og Hafnarfjalli eru forgangsverkefnin að koma heilbrigðisstarfsfólki til vinnu og tryggja að sjúkraflutningar og annað gangi sinn vanagang,“ segir Jónas. „Svo er líka búið að vera að sinna fólki sem er fast á bílum hér og þar og vegfarendum eftir gleði næturinnar og öðrum sem á ferli eru.“

Jónas á ekki von á að það þurfi að kalla út frekari mannskap, færð sé að komast í betra horf og innan einhverra klukkustunda verði að öllum líkindum hægt að senda heim þá 70-80 björgunarsveitarmenn sem hafa verið að störfum. „En það er búið að vera að ryðja þessar stofnleiðir þannig að við finnum að þetta er að liðkast töluvert.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert