„Útlendingarnir til í hvað sem er“

Pörin koma alls staðar að úr heiminum til að halda …
Pörin koma alls staðar að úr heiminum til að halda brúðkaup eða fara í myndatöku á Íslandi. Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís

„Þetta er þriðja árið okkar í þessu og það er alltaf meira og meira að gera,“ segir Styrmir Kári Erwinsson ljósmyndari en hann og kærastan hans, Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir ljósmyndari, hafa myndað fjölmörg pör í tilefni brúðkaupa og trúlofana á síðustu árum.

Styrmir Kári vinnur alfarið sem brúðkaupsljósmyndari en Heiðdís er einnig í hlutastarfi hjá Birtíngi útgáfufélagi. Að sögn Styrmis Kára er mest að gera yfir sumarmánuðina en yfir vetrartímann er samt sem áður stöðugur straumur af fólki, þannig að það er nóg að gera árið um kring.

Styrmir Kári vinnur alfarið sem brúðkaupsljósmyndari en Heiðdís Guðbjörg er …
Styrmir Kári vinnur alfarið sem brúðkaupsljósmyndari en Heiðdís Guðbjörg er einnig í hlutastarfi hjá Birtíngi útgáfufélagi. Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís

„Íslendingar gifta sig helst bara á laugardögum í júlí en erlend pör gifta sig meira á öllum árstíðum, þeim finnst snjórinn, norðurljósin og veturinn oft spennandi.“

Styrmir Kári segir flesta sækjast eftir myndatökum á Suðurströndinni eða Snæfellsnesinu.

„Fólk hefur séð flestar myndir þaðan og þekkir því svæðið best, það er líka svona í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.“

Styrmir og Heiðdís vinna mikið með ferðaskrifstofunni Pink Iceland sem sérhæfir sig í að skipuleggja brúðkaup á Íslandi fyrir erlenda kúnna. Flestir viðskiptavinir Styrmis og Heiðdísar eru Bandaríkjamenn, Kanadabúar eða Bretar en þau hafa einnig tekið myndir af pörum frá Evrópu, Asíu og Eyjaálfu.

Styrmir Kári og Heiðdís vinna mikið með ferðaskrifstofunni Pink Iceland …
Styrmir Kári og Heiðdís vinna mikið með ferðaskrifstofunni Pink Iceland sem sérhæfir sig meðal annars í að skipuleggja brúðkaup á Íslandi fyrir erlenda viðskiptavini. Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís

„Við höfum myndað fólk frá Þýskalandi, Finnlandi, Ítalíu og fleiri löndum í Evrópu og svo er töluvert um fólk frá Singapúr, Hong Kong og Kína. Við höfum líka fengið fyrirspurnir frá Ástralíu og Brasilíu, bara alls staðar að úr heiminum.“

Umfangið misjafnt

Allur gangur er á umfangi brúðkaupanna hér á landi og einhverjir koma eingöngu í myndatöku en halda brúðkaupið annars staðar.

„Einhver pör koma ein, stinga bara af. Þau vilja þá kannski ekki halda stórt brúðkaup heldur bara gera þetta tvö ein. Það er líka slatti af fólki sem tekur nánustu fjölskyldu með og svo höfum við myndað brúðkaup þar sem eru 60-70 gestir.“

Styrmir Kári segir Bandaríkjamenn einnig panta trúlofunarmyndatökur en þá eru myndirnar teknar í tilefni trúlofunarinnar. Þá virðist það vera ákveðin hefð í Kína að brúðkaupsmyndatakan fari fram fyrir brúðkaupið.

„Fólkið kemur þá með brúðkaupsfötin og allt með sér svo þetta er eins og brúðkaupsmyndataka. Svo sýnir parið myndirnar í brúðkaupinu,“ segir Styrmir Kári.

Suðurlandið og Snæfellsnes eru vinsælustu myndatökustaðirnir, að sögn Styrmis Kára.
Suðurlandið og Snæfellsnes eru vinsælustu myndatökustaðirnir, að sögn Styrmis Kára. Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís

Gefin saman á Sólheimajökli

Að sögn Styrmis Kára fór ein eftirminnilegasta myndataka þeirra Heiðdísar fram á Sólheimajökli fyrir um tveimur árum en þar var parið gefið saman.

„Þetta var mjög áhugavert, athöfnin fór fram við hliðina á jöklasprungu. Þau fengu prest með sér þarna upp og bara allir í mannbroddum.“

Þá hafa þau myndað í alls konar veðrum en Styrmir Kári segir fólk yfirleitt ekki láta snjóstorma, rigningu og rok á sig fá.

„Útlendingarnir eru eiginlega bara til í hvað sem er, þeir gera sér grein fyrir að það er allra veðra von á Íslandi og finnst það bara partur af upplifuninni.“

Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís
Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís
Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís
Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís
Mynd/Styrmir Kári & Heiðdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert