„Verulega stór tíðindi í þessu“

Sigursteinn Másson kvikmyndagerðarmaður.
Sigursteinn Másson kvikmyndagerðarmaður. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta eru feykilega merkileg gögn og það verður að segjast að endurupptökunefnd hefur verið gríðarlega dugleg við að bæði afla gagna og setja þetta upp í svona skýra og greinargóða tímaröð,“ segir Sigursteinn Másson kvikmyndagerðamaður í samtali við mbl.is.

Sigursteinn gerði heimildarmyndina Aðför að lögum, sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálin og kom út árið 1997. Hann er mikill áhugamaður um málin og þekkir þau betur en margur annar. „Það er af nógu að taka,“ segir Sigursteinn. „En mér sýnist að það séu verulega stór tíðindi í þessu þegar þetta er skoðað í samhengi.“

Liggur yfir lestrinum

Í gær og í fyrradag lá hann yfir úrskurðunum sem endurupptökunefnd birti á föstudag en niðurstaða nefndarinnar var sú að taka skuli upp að nýju mál þeirra fimm einstaklinga sem sakfelldir voru fyrir aðild að morðum Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar sem báðir hurfu árið 1974. Ekki var fallist á endurupptöku í máli Erlu Bolladóttur en hún var á sínum tíma aðeins sakfelld í Hæstarétti fyrir rangar sakargiftir en ekki aðild að manndrápi.

„Það eru þarna nýjar upplýsingar. Það eru skýrslur sem aldrei voru lagðar fram og svona ýmis gögn sem er afskaplega gott að fá inn í þessa heildarmynd,“ segir Sigursteinn. Úrskurðirnir sem birtir voru á föstudag telja fleiri þúsund blaðsíður og er Sigursteinn nú í fullu kafi við lesturinn.

Vekur spurningar í framhaldinu

„Þetta eru minnisblöð og þetta eru líka yfirheyrslur og jafnvel samprófanir, að einhverju leyti sem mér sýnist að hafi ekki verið inni í gögnunum á sínum tíma sem fór fyrir sakardóm og Hæstarétt,“ segir Sigursteinn, með fyrirvara um að hann eigi enn þá eftir að skoða gögnin til hlítar. Hann vill að svo stöddu ekki tjá sig efnislega um einstaka atriði, ekki fyrr en hann er búinn að kynna sér gögnin betur.

Á þessu stigi telur Sigursteinn ljóst að nefndin hafa staðið sig vel í því að afla gagna, setja þau saman og lista upp, en í gögnunum komi fram margt bæði merkilegt og áhugavert. Gögnin vekja nú þegar ýmsar spurningar sem að áhugavert verði að fara í gegnum í framhaldinu að mati Sigursteins. „Svona fljótt á litið, varðandi öflun gagna og svona úrvinnslu úr þeim og framsetningu og allt þetta, þá hafa þau unnið gott verk,“ segir Sigursteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert