„Við erum allir bara í sæluvímu“

Jónas hafnaði í 19. sæti keppninar, Daníel í því 28. …
Jónas hafnaði í 19. sæti keppninar, Daníel í því 28. og Franz í 68. sæti, þrátt fyrir að vera viðbeinsbrotinn. Ljós­mynd/​Jón­as Stef­áns­son

„Við erum bara allir í sæluvímu, bara rétt að jafna okkur á því að þetta sé búið.“ Þetta segir Jónas Stefánsson, en hann ásamt félögum sínum, þeim Franz Friðrikssyni og Daníel Magnússyni, kom í mark í gær í heljarinnar fjallahjólakeppni um frumskóga Kostaríka sem hófst á miðvikudag.

Liðlega hundrað fjallahjólagarpar tóku þátt í keppninni og hafnaði Jónas í 19. sæti í heildarkeppninni, Daníel í því 28. og Franz í 68. sæti. Keppt var einnig í nokkrum flokkum en þar hafnaði Jónas í 14. sæti í „pro-flokki“ og Daníel í 5. sæti í flokki 40 ára og eldri. Fyrir keppnina ætlaði Franz að halda sig örlítið á hliðarlínunni en hann viðbeinsbrotnaði fyrir keppni. Hann lét það þó ekki stöðva sig og lauk allri keppninni með glæsibrag.

„Hann var bara svo ánægður að hafa klárað í gegnum alla keppnina. Alla vega í mínum augum er hann klárlega sigurvegari keppninnar, að klára þetta svona,“ segir Jónas um félaga sinn Franz.

Keppendur höfðust við í tjaldbúðum á milli keppnisdaga.
Keppendur höfðust við í tjaldbúðum á milli keppnisdaga. Ljós­mynd/​Jón­as Stef­áns­son

Kapparnir luku keppni undir lok gærdagsins og gistu í tjaldbúðum í nótt og eru nú nýlega komnir aftur til höfuðborgarinnar San José. „Við vorum bara úti í óbyggðum, bara úti í fumskógi,“ útskýrir Jónas sem er yfir sig ánægður með keppnina en þeir félagar eru enn að ná sér niður á jörðina. Stórbrotin skógi vaxin náttúra, mikill hiti, þurr jarðvegur og hnífbrött fjöll einkenndu umhverfið þar sem keppnin fór fram.

„Umgjörðin á þessu öllu er bara til fyrirmyndar, við vorum þarna í flottum dal bara úti í frumskógi, búið að setja upp tjaldbúðir fyrir okkur og séð um allt fyrir okkur með mat og svoleiðis,“ segir Jónas.

Furðuleg fjöll og mikill bratti

Landslagið segir Jónas vera töluvert frábrugðið því sem þeir þekkja á Íslandi, sér í lagi fjöllin. „Fjöllin þarna eru mjög furðuleg fyrir okkar sjónir. Þau eru minna brött efst en verða svo bröttust neðst í dölunum,“ útskýrir Jónas.

Þó hver dagleið í kílómetrum talið hafi ekki verið ýkjalöng voru aðstæður í keppninni engu að síður mjög krefjandi. „Þetta var oft alveg ofsalega mikil hækkun og oft alveg snarbratt upp og niður. Ætli við höfum ekki verið að hjóla kannski að meðaltali 15 til 20 kílómetra á dag,“ segir Jónas.

Stundum þurftu keppendur að bera hjólin á bakinu.
Stundum þurftu keppendur að bera hjólin á bakinu. Ljós­mynd/​Jón­as Stef­áns­son


Aðstandendur keppninnar þurftu oft að ferja keppendurna upp og niður fjallshlíðarnar og stundum þurftu keppendur að reiða hjólin eða bera þau á bakinu. „Það var oft alveg mikið klifur og meira að segja einn daginn þurftum við að bera hjólin bara á bakinu upp til fjalls því þar voru engir vegir. Ég held að það hafi verið 500 metrar þar bara með hjólið á bakinu,“ segir Jónas. 

Franz og Daníel ætla nú að gefa sér smá tíma og sig um landið fram á föstudag áður en þeir snúa aftur heim. Jónas aftur á móti bíður nú eftir eiginkonu sinni sem kemur til hans í kvöld og ætla þau að taka út brúðkaupsferðina sína næstu 10 daga en þau giftu sig í ágúst.

Ljós­mynd/​Jón­as Stef­áns­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert