Léttskýjað sunnan- og vestanlands

Það er eins gott að það blási ekki mikið á …
Það er eins gott að það blási ekki mikið á suðvesturhorni landsins næstu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spáð er norðaustan 10-18 m/s, hvassast suðaustan til og á Vestfjörðum. Dálítil snjókoma eða slydda norðan og austan til en él síðdegis. Yfirleitt léttskýjað sunnan- og vestanlands, en stöku él syðst. Úrkomuminna með kvöldinu. Hæg austlæg átt og víða léttskýjað á morgun, en norðan 8-13 og og dálítil él austast. Frost víða 1 til 6 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna, segir í veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir næsta sólarhring.

„Norðaustlægir vindar blása í dag og gengur á með éljum á norðan- og austanverðu landinu. Annars yfirleitt léttskýjað fyrir sunnan og vestan. Keimlíkt veður næstu daga, þótt vindar verði heldur hægari og úrkoma með minna móti. Reikna má með talsverðu frost víða um land, einkum þó inn til landsins,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Á þriðjudag:
Norðan 8-15 m/s og dálítil él austast á landinu, en annars fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og yfirleitt léttskýjað. Frostlaust syðst, en frost annars 0 til 5 stig. Kólnar með kvöldinu.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:
Fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og léttskýjað, en heldur hvassara og stöku él austast. Talsvert frost.

Á laugardag og sunnudag:
Austlæg átt og bjart með köflum, en strekkingur og dálítil él syðst. Áfram talsvert frost.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert