Taka á móti skíðagörpum með bros á vör

Mikill snjór er nú í Bláfjöllum og færi gott og …
Mikill snjór er nú í Bláfjöllum og færi gott og verður skíðasvæðið opnað á milli 13 og 14 í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Það eru frábærar aðstæður. Þetta er alveg eins og við viljum hafa það. Það er gríðarlega mikill snjór og búið að troða allar helstu skíðaleiðir,“ segir Gunnar Kr. Björgvinsson, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, en skíðasvæðið verður opnað á milli 13 og 14 í dag.

„Nú er loksins kominn snjór utan brauta, þannig að þeir sem það vilja geta laumast  út fyrir án þess að vera strax komnir í grjót,“ segir hann.

Byrjað verður á að opna Heimatorfuna svonefndu og stefnt er að því að opna diskalyftur á Suðursvæðinu eftir klukkan fimm í dag. „Við reynum að keyra allt sem við getum,“ segir Gunnar. Óvíst er þó hvort fleiri lyftur en þær sem hér voru nefndar verði opnaðar í dag.

Verið að leggja göngubrautina

Verið var að leggja göngubrautina þegar mbl.is náði í Gunnar og verður hún klár fyrir opnun í dag. „Nú erum við loksins komin með snjóinn sem við erum búin að vera að bíða eftir í allan vetur og getum farið að laumast eitthvað út fyrir þennan litla hring sem við höfum verið að taka hingað til.“

Eitthvað hefur verið um að snjóflóðaspýjur falli í Bláfjallahryggnum, en Gunnar segir ekki hafa verið mikið um slíkt á skíðasvæðinu, en að vanda sé vel fylgst með slíku og aðstæður metnar. „Í nótt ýttum við aðeins fram af til að sjá hvort það færi af stað og það var ekki að hafa nein áhrif.“ Hann segir brekkurnar fyrir ofan lyfturnar enda vera teknar mjög reglulega. „Í Vífilsfellinu og víðar í Bláfjallahryggnum var maður hins vegar að sjá að það hafði farið eitthvað stærra. Það er þá eitthvað sem hefur verið að safnast upp til lengri tíma.“ 

Fært upp eftir fyrir alla bíla

Stillt og gott veður er í Bláfjöllum þessa stundina og þótt nokkuð kalt sé er engu að síður „frábært skíðaveður“ að sögn Gunnars.  Færðin er heldur ekkert til að kvarta yfir. Púðursnjór er utan brauta og unninn snjór í troðnu skíðaleiðunum. Gunnar kveðst líka eiga von á að margir bruni upp eftir þegar vinnudeginum lýkur. „Þegar snjórinn er kominn og veðrið er svona gott á ég alveg von á að það verði vel mætt í fjallið.“

Ófærð mun heldur ekki að stöðva neinn líkt og gerðist í gær. „Það á að vera orðið fært upp eftir fyrir alla bíla og búið er að hreinsa bílaplönin, þannig að við eigum að geta tekið á móti fólki með bros á vör.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert