Of þung Grímseyjarkúla

Talið er að of mikið rask myndi fylgja flutningi kúlunnar.
Talið er að of mikið rask myndi fylgja flutningi kúlunnar.

Átta tonna grásteinskúla sem til stóð að flytja á stall sem er um 71 metra frá enda norðurhluta Grímseyjar hefur staðið óhreyfð skammt norðan við flugvöllinn í eynni síðan síðasta sumar.

Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ hefur nú verið hætt við að setja hana á stallinn af þeirri ástæðu að kúlan er of þung til flutninga á eynni. Áætlað var að staðsetja kúluna á heimskautsbaugnum þar sem hann yrði á hverjum tíma, en samkvæmt útreikningum færist hann að jafnaði til um nokkra metra á ári. Átti kúlan að færast sem því næmi þar til hún myndi fara út í sjó þegar baugurinn næði þangað.

Kúlan hlutskörpust

Í lok árs 2013 efndi Akureyrarbær í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands til samkeppni um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey. Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda sigruðu í hugmyndasamkeppni með verkinu Hringur og Kúla. Smíði lauk á síðasta ári og var hún færð í Grímsey og til stóð að vígja verkið síðasta sumar.

Hér er brugðið á leik á átta tonna grásteinskúlunni.
Hér er brugðið á leik á átta tonna grásteinskúlunni.

„Grunnhugmyndin að verkinu hefur breyst. Við smíðina varð kúlan umtalsvert þyngri en hún átti að vera. Hugmyndin um að færa kúluna gengur því ekki upp. Menn hafa verið hikandi við að færa hana upp að stallinum, því það myndi væntanlega kosta einhverja vegalagningu og rask sem enginn áhugi er að fara út í eingöngu af þessari ástæðu,“ segir Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu.

Verði fundinn nýr staður

Hann segir að óskað hafi verið eftir því við listamennina að kúlunni verði fundinn nýr aðgengilegur staður í eynni. „Og um leið prjóna einhvers konar viðbót við verkið sem mun sveiflast með baugnum en yrði um leið auðveldara að flytja. Það gæti t.a.m. verið minni kúla en það er í höndum listamannanna að ákveða það,“ segir Þórgnýr. Hann segir að kúlan hafi nú þegar vakið athygli þrátt fyrir að sinna ekki áætluðu hlutverki sínu en ljóst sé af frágangi að hún sé ekki á þeim stað sem henni var ætlaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert