Undrast niðurstöðu nefndarinnar

Erla Bolladóttir í dómssal á meðan meðferð málsins stóð á …
Erla Bolladóttir í dómssal á meðan meðferð málsins stóð á áttunda áratugnum. Morgunblaðið/Kristján Einarsson

„Gleðitíðindin eru auðvitað þau að heimiluð er endurupptaka á málum flestra hinna dómfelldu. Ég leyfi mér hins vegar að furða mig á því að ekki hafi verið heimiluð endurupptaka á málum allra enda höfðu verið færð rök að því að framburður og játningar allra sakborninga hefði ekki verið trúverðugur og málið því allt á sandi reist,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar Ögmundur í máli sínu til þess að endurupptökunefnd hefur nú synjað beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku á máli hennar sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 22. febrúar 1980. Var hún þar sakfelld fyrir brot á 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa borið þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum.

Í tíð sinni sem innanríkisráðherra skipaði Ögmundur starfshóp, í október 2011, til að fara yfir rannsókn tveggja sakamála, Guðmundar- og Geirfinnsmála, en hópurinn kynnti niðurstöðu sína 25. mars 2013. Var það mat hópsins, í ljósi niðurstöðu skýrslu sinnar, að framburðir dómfelldra hefðu verið óáreiðanlegir, að veigamiklar ástæður væru fyrir því að málin yrðu tekin upp á ný.

„Hrópandi óréttlæti“

Eftir að hafa fjallað um málið í á þriðja ár var niðurstaða endurupptökunefndar að fallast á endurupptöku á málum þeirra manna sem dæmdir voru fyrir aðild að hvarfi og dauða Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar árið 1974. Ekki var fallist á endurupptöku á málum vegna rangra sakargifta.

Segir Ögmundur það „vandséð hvernig hægt er að halda þeim þætti málsins aðskildum frá öðrum þáttum“. En í úrskurði endurupptökunefndar í máli Erlu segir meðal annars að „[e]ngin gögn liggja fyrir um að endurupptökubeiðandi hafi verið knúin eða hvött til þessara röngu sakargifta af rannsakendum eða öðrum“ og að niðurstaða nefndar sé sú að Erla hafi „ekki sýnt fram á að skilyrði séu til endurupptöku máls hennar“.

Að sögn Ögmundar liggur beinast við að spyrja hvers vegna endurupptökunefnd, sem er stjórnsýslunefnd, hafi ekki gengið eftir því að fá fram þann rökstuðning eða upplýsingar sem á vantaði í málinu.

„Mín skoðun er sú að standi lög og reglur í vegi fyrir því að réttlæti nái fram að ganga verði að breyta þeim. Hafi endurupptökunefnd talið að einhverju væri ábótavant í rökstuðningi fyrir endurupptökubeiðni, liggur beinast við að spyrja hvers vegna ekki hafi verið gengið eftir því að fá þann rökstuðning eða upplýsingar sem á vantaði. Segir okkur ekki eitthvað, sem ég leyfi mér nú að kalla sanngjarnt og eðlilegt, að svo hefði átt að vera?“ segir Ögmundur og bætir við að ekki verði búið við svona „hrópandi óréttlæti“.

Þá segir Ögmundur niðurstöðu endurupptökunefndar, þrátt fyrir að ekki hafi verið fallist á upptöku á málum vegna rangra sakargifta, vera ákveðinn heilbrigðisvott fyrir íslenskt réttarkerfi.

„Þetta eru miklar fréttir og ákveðinn heilbrigðisvottur fyrir kerfið að nú kunni að vera að renna upp sá tími að það geti leiðrétt sig þegar alvarleg mistök hafa verið gerð. Staðreyndin er sú að játningar og sakargiftir voru knúðar fram með óréttmætum hætti – það þarf réttarkerfið að horfast í augu við,“ segir hann.

Niðurstaðan er „vonbrigði“

Arndís Soffía Sigurðardóttir lögfræðingur var formaður starfshóps innanríkisráðuneytisins.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að framburður Erlu væri óáreiðanlegur eins og allra hinna, nema Guðjóns [Skarphéðinssonar] sem metinn var falskur. Þetta hefur, þrátt fyrir niðurstöðu endurupptökunefndar, ekki verið dregið í efa,“ segir Arndís Soffía og bætir við að endurupptökunefnd hafi hins vegar meðal annars þótt skorta markvissan rökstuðning, líkt og að framan greinir, til að fallast á endurupptöku þess hluta málsins er varðar rangar sakargiftir.

Spurð hvort niðurstaða endurupptökunefndar í máli Erlu hafi komið á óvart kveður Arndís Soffía já við. „Ég hefði séð ástæðu til þess að láta þetta mál allt hanga saman. Þetta eru því vonbrigði,“ segir hún.

Vill rannsaka rannsóknina

Ragnar Aðalsteinsson er lögmaður Erlu. Hann kveðst vonsvikinn með niðurstöðuna í máli hennar og útilokar ekki að látið verði reyna á gildi úrskurðar endurupptökunefndar.

„Ef úrskurðurinn er haldinn verulegum annmörkum þá er hann ógildanlegur með dómi,“ segir Ragnar, en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um niðurstöðuna að svo stöddu.

Erla Bolldadóttir var viðstödd kynningu á skýrslu starfshóps innanríkisráðherra árið …
Erla Bolldadóttir var viðstödd kynningu á skýrslu starfshóps innanríkisráðherra árið 2013. mbl.is/Rósa Braga

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur tekur í svipaðan streng og segist undrast niðurstöðuna í máli Erlu.

„Það hefði verið eðlilegast að endurupptaka allt málið eins og það leggur sig. Að skilja eftir þennan þátt [er snýr að röngum sakargiftum] er mjög sérstakt,“ segir Helgi og heldur áfram:

„Menn hafa í gegnum tíðina einblínt um of á orð sakborninga í þessu máli í stað þess að taka fyrir rannsóknina. Ég tel það vera afar mikilvægt að rannsaka rannsóknina sjálfa og fá þá sem að henni stóðu til þess að lýsa því sem á gekk. Það var pottur brotinn í rannsókninni á sínum tíma og á það eigum við að leggja áherslu, en ekki einungis á sakborningana.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert