„Það er stríð í loftinu“

„Þetta er í rauninni maður að deyja í ónefndu stríði einhvern tíma í fortíðinni,“ segir Ragnar Kjartansson um verkið eða óperuna Stríð sem verður sett upp í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands í Þjóðleikhúsinu vorið 2018. Samkomulag þess efnis var undirritað í gær en Kjartan Sveinsson semur tónlistina í verkinu.

Ragnar segir í samtali við mbl.is að verkið snúist í raun um leikhúsupplifunina sjálfa. „Þú ert inni í þessum sal og þú ert að horfa á einhverja manneskju þykjast þjást og það er svakaleg yfirbygging yfir það að sýna þessa tilfinningu.“ Þetta þyki honum áhugaverð nálgun segir hann og bætir við: „En síðan bara einhvern veginn er bara stríð í loftinu.“

Frumgerð óperunnar, Krieg, var frumsýnd í Volksbühne í Berlín í mars 2016. „Þetta verður miklu flottara hérna, enda tónlistin flutt lifandi en ekki af bandi. Í raun má segja að uppfærslan í Berlín hafi verið eins og skissa að verkinu eins og það gæti orðið,“ segir Kjartan. „Skissan var uppfull af möguleikum og nú fáum við tækifæri til að klára þetta sem málverk,“ segir Ragnar og tekur fram að hann líti á sviðsverkið sem myndlistarverk. „Þetta er eins og skúlptur eða málverk sem þú labbar inn í,“ segir Ragnar.

Spurðir hvort þeir séu búnir að finna rétta leikarann í hlutverkið, sem krefst mikils raddlegs úthalds, segjast Ragnar og Kjartan vera orðnir heitir. „Við erum búnir að þræða barina.“

„Ragnar er okkar stærsti nútímalistamaður og mikið ævintýri fyrir íslenskt menningarsamfélag að fá Ragnar og hans sýningu í fullri gerð hér á svið. Það verður líka mikið ævintýri fyrir okkur í Þjóðleikhúsinu að fá að taka aftur við Sinfóníunni og reyna að troða 70 manns ofan í gryfjuna,“ segir Ari Matthíasson um uppfærsluna.

Fjallað er um samstarfið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert