Skordýrin tekin af matseðlinum

Food & Fun hátíðin var formlega sett í Menntaskólanum í …
Food & Fun hátíðin var formlega sett í Menntaskólanum í Kópavogi 1. mars sl. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lamba carpaccio, gerjaður hvítlaukur, kalabrísk chiliolía, dill-crema og engisprettur“ - svona hljómaði þriðji réttur í sjö rétta Food & Fun veislu að hætti matreiðslumannsins Julian Medina frá New York, en hann sá um matarveislu á veitingastaðnum Apótekið við Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur.

Áðurnefnd skordýr voru hins vegar tekin af matseðlinum að beiðni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

„Við fengum tilmæli frá Matvælastofnun um að stöðva þetta þar sem innflutningur á engisprettum til manneldis er bannaður,“ segir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við blaðamann, en kokkurinn bandaríski flutti engispretturnar sjálfur hingað til lands. „Svona innflutningur er bara ekki leyfður samkvæmt okkar löggjöf og því var þetta stoppað.“

Ekki á diskum Evrópubúa

Matvæli á borð við engisprettur falla undir það sem kallast „nýfæði“ en um er að ræða hugtak yfir matvæli sem ekki voru hefðbundin neysluvara í ríkjum Evrópusambandsins fyrir 15. maí 1997 þegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) um ný matvæli og ný innihaldsefni í matvælum tók gildi. Reglugerðin var innleidd hér á landi 30. október 2015.

„Til að hægt sé að flytja inn og selja nýfæði þarf viðkomandi að sækja um leyfi fyrir því,“ segir Grímur Eggert Ólafsson, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, en mikið hefur verið fjallað um skordýr sem matvæli í ríkjum Evrópu að undanförnu og þá einkum hvort neysla þeirra sé örugg neytendum.

Hefur meðal annars verið rætt um hreinlæti við framleiðslu skordýranna, hugsanlegt ofnæmi, skaðleg áhrif óhóflegrar neyslu kítíns og skaðleg eða eitrunaráhrif annarra efna sem finnast náttúrulega í skordýrum.

Matarhátíðin Food & Fun var sett 1. mars síðastliðinn en henni lauk í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert