Ferðast 334 km til að þrífa kamra

Þessi ljósmynd var tekin 11. febrúar, á Dettifossvegi 862 milli …
Þessi ljósmynd var tekin 11. febrúar, á Dettifossvegi 862 milli Ásbyrgis og Vesturdals. Ljósmynd/Guðmundur Ögmundsson

Þjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs segir að ákvörðun samgönguráðherra um að fresta framkvæmdum á Dettifossvegi geri starfsfólki þjóðgarðsins erfitt fyrir. 349 þúsund manns heimsóttu Dettifoss á síðasta ári, þar af fóru 250 þúsund leiðina að fossinum vestan megin þar sem fara átti í vegaframkvæmdirnar.

Starfsstöð Guðmundar Ögmundssonar, þjóðgarðsvarðar á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, er í Ásbyrgi. Til þess að geta sinnt málum tengdum ferðamönnum sem heimsækja Dettifoss, þar á meðal að þrífa kamra og athuga með gönguleiðir, þurfa Guðmundur og samstarfsfólk hans stundum að ferðast 334 kílómetra leið fram og til baka frá Ásbyrgi í gegnum Húsavík og Mývatnssveit vegna þess að leiðin vestan megin eftir Dettifossvegi er iðulega ófær að vetri til. Styttri vegalengdin er annars 75 kílómetrar fram og til baka.

Ferðamenn við Dettifoss.
Ferðamenn við Dettifoss. mbl.is/Rax

„Við leggjum mikla vinnu í að sinna gönguleiðum þarna og tryggja öryggi gesta sem eru að koma þarna að vetri til. Við erum stöðugt að færa gönguleiðina til í snjónum, miðað við snjóalög, hálku og slíkt,“ segir Guðmundur.

Hann tekur þó fram að málum tengdum Dettifossi sé einnig sinnt úr Mývatnssveit en sú leið er greiðfærari.

Dettifoss.
Dettifoss. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vill ekki stoppa úti í miðri á

Vegagerðin hefur sinnt vegaframkvæmdum á Dettifossvegi síðustu ár og í ágúst klárast útboð á 8 kílómetra kafla frá Dettifossvegi vestri niður undir Hólmatungur. Fjármagnið vegna framkvæmdanna var ekki nægt til að setja bundið slitlag á veginn, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Aukafjármagni verður veitt til þess. Frekari framkvæmdum á Dettifossvegi sem átti að fara í á þessu ári og því næsta hefur verið frestað.

Guðmundur segir erfitt að eiga við stöðu mála eins og hún er núna. „Þegar þetta er komið á þetta stig er eiginlega vonlaust að stoppa úti í miðri á fyrst verkið er farið af stað,“ segir hann.

250 þúsund manns vestan megin

Alls heimsóttu 349 þúsund manns Dettifoss á síðasta ári, þar af fóru 250 þúsund leiðina að fossinum vestan megin þar sem fara átti í vegaframkvæmdirnar. 89 þúsund gestir fóru austan megin úr Mývatnssveit.  Árið 2015 fóru 199 þúsund manns að Dettifossi vestan megin en talan hefur farið ört hækkandi undanfarin ár. Árið 2012 fóru 88 þúsund manns vestan megin í átt að fossinum.

Tíföldun í desember

Til marks um fjölgun ferðamanna að Dettifossi fóru um 3.200 manns vestan megin í desember síðastliðnum, sem er tíföldun frá því í sama mánuði í fyrra þegar ferðamennirnir voru 311 talsins. Þannig voru að jafnaði rúmlega 100 manns sem komu vestan megin að Dettifossi á degi hverjum í desember síðastliðnum. Þar spilar inn í að veturinn hefur verið mjög snjóléttur og aðgengi að svæðinu því gott.

Í raun varð algjör sprenging á síðustu þremur mánuðum síðasta árs því í október heimsóttu rúmlega 16 þúsund manns fossinn vestan megin frá, sem er tvöföldun frá því í sama mánuði í fyrra. Í nóvember komu þangað tæplega 5 þúsund manns en í fyrra voru ferðamennirnir um 2.500, sem er einnig tvöföldun.   

Vonbrigði hjá ferðamönnum

Að sögn Guðmundar hafa ferðamenn oft kvartað yfir því að Dettifossvegur sé ófær að vetri til. Þá hafa þeir ætlað að fara leiðina frá Ásbyrgi eftir að hafa verið á Mývatni. Planið sé þá að halda áfram hringveginn. „Margir virðast ekki vera upplýstir um að það er ekki hægt að fara þessa leið. Það eru oft mikil vonbrigði fyrir þá að þurfa að snúa alla leið til baka og fara um Mývatnsöræfi eftir að hafa kannski áður verið á Mývatni,“ segir hann.

Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður.
Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert