„Stór göt á umferðarlögunum“

Hjólandi í umferðinni hefur fjölgað.
Hjólandi í umferðinni hefur fjölgað. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki hafa verið gerðar miklar breytingar á umferðarlögunum frá 30. mars 1987 sem tóku gildi 1. mars 1988. Ýmsar minni háttar breytingar hafa þó verið gerðar á þeim en þær varða flestar meðal annars breytingar á stjórnsýslu eða sektarákvæðum.   

Árið 2007 tók til starfa nefnd sérfræðinga sem vann að heildarendurskoðun umferðarlaganna því þá fyrir 10 árum þótti brýnt að bæta lögin sem voru 20 ára gömul. Kristján L. Möller, þáver­andi sam­göngu­málaráðherra, skipaði nefndina. Tveimur árum síðar eða í byrjun júní árið 2009 skilaði nefndin af sér tillögum. Frumvarp til nýrra umferðarlaga var lagt fram á hverju ári frá 2009 - 2012 eða á 138., 139., 140. og 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. 

Hafa ekki breyst í takt við tímann 

„Það eru stór göt á umferðarlögunum. Það þarf að endurskoða þau og gera breytingar á þeim í takt við tímann því það hafa orðið miklar samfélagsbreytingar á þessum tíma bæði tækniframfarir og á umferðarmenningu. Til dæmis hefur verið gríðarlega mikill vöxtur í hjólreiðum undanfarið,“ segir Birgir Birgisson, áhugamaður um umferðaröryggi og hjólreiðamaður, við mbl.is. Hann benti á í pistli sínum, sem birtist á Kjarnanum, að umferðarlögin þyrfti að endurskoða með tilliti til umferðaröryggis.

Ný umferðarlög tóku gildi árið 1988 á Íslandi.
Ný umferðarlög tóku gildi árið 1988 á Íslandi. mbl.is/Ómar

Misvísandi svör um hjólandi yfir gangbraut

Birgir nefnir eitt dæmi af mörgum í umferðarlögunum sem þyrfti að endurskoða en það viðkemur umferð yfir gangbraut þar sem mismunandi tegundir vegfarenda skarast, til dæmis gangandi, hjólandi og akandi. Hann segist hafa margoft rekið sig á vanþekkingu fólks á gildandi lögum.

„Samgöngustofa hefur gefið upp mismunandi svör um þær reglur sem gilda um hjólreiðamenn sem fara yfir gangbraut. Það eru allt of margar spurningar sem hefur verið velt upp en enginn vill koma með svör við. Ef lög og reglur væru afdráttarlaus um þetta þá væru þessi álitamál úr sögunni,“ segir Birgir. Hann segir sérstaklega brýnt að endurskoða þau í ljósi meiri umferðarþunga.

Mögulega þörf á endurskoðun

Samgöngustofa tekur í sama streng og Birgir og segir umferðarlögin „að mörgu leyti barn síns tíma og þarfnast einhverrar endurnýjunar, m.a. vegna tækniframfara og samfélagsbreytinga sem alltaf verða. [...] Einnig væri mögulega þörf á að endurskoða reglur sem t.d. varða hjólandi umferð yfir gangbraut. Hins vegar eru umferðarlögin víðfeðm, snerta athafnir allra landsmanna daglega og því þarf að fara mjög varlega í verulegar breytingar á þeim auk þess sem lögin þurfa að vera í samræmi við alþjóðareglur,“ segir í svari Samgöngustofu um hvort gera þyrfti breytingar á umferðarlögunum.

Nægilegur gaumur gefinn að hjólreiðafólki?

Birgir bendir einnig á að hann efist um að í námsefni sem verðandi ökumenn þurfa að tileinka sér sé nægilegur gaumur gefinn að hjólreiðafólki og þeim reglum sem gilda í umferðinni sem lýtur að þeim.

Námsefni vegna ökuréttinda er í höndum einkaaðila. Ökukennarafélag Íslands gefur út námsefni vegna allra réttindaflokka og gaf á síðasta ári út nýja kennslubók fyrir almenn ökuréttindi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert