Vestfirðingar bíða eftir „dómsdegi"

Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg …
Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg nr. 60 af Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi og niður á láglendið við Breiðafjörð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Undirskriftasöfnun til að mótmæla frestun á vegaframkvæmdum í Gufudalssveit á Vestfjörðum hefur gengið vonum framar.  Um 6.200 undirskriftir hafa safnast. Að sögn Hauks Más Sigurðssonar, sem er einn þeirra sem standa á bak við söfnunina, var markmiðið að ná 6.000 undirskriftum, sem er álíka mikið og íbúatala Vestfjarða.

„Við héldum að það myndi gerast á 30 til 40 dögum en það náðist á viku. Það er miklu betra en við þorðum að vona enda er engin markaðssetning á bak við þetta hjá okkur,“ segir Haukur Már.

Haukur Már Sigurðsson frá Patreksfirði.
Haukur Már Sigurðsson frá Patreksfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meta stöðuna annað kvöld

Þeir sem standa á bak við undirskriftasöfnunina ætla að hittast annað kvöld og meta stöðuna. Að sögn Hauks Más verður tekin ákvörðun um hvort beðið verði með frekari mótmæli þangað til Skipulagsstofnun birtir álit sitt á matsskýrslu Vegagerðarinnar vegna vegaframkvæmdanna. Það verður birt í síðasta lagi 27. mars. 

Í matsskýrslu Vegagerðarinnar vegna umhverfismats kom fram að leið Þ-H um Gufudalssveit sé besti kosturinn við val á nýrri leið um sveitina. Sú leið liggur meðal annars um Teigsskóg.

„Það er hinn svokallaði dómsdagur í okkar huga. Það bíða hér allir eftir þessum degi,“ segir Haukur um 27. mars. „Ef það kemur neikvætt álit frá þeim þá er spurningin hvernig stjórnvöld munu bregðast við því. Munu þau líta svo á að þetta sé ráðgefandi álit og þau séu ekki skuldbundin af því. Ef þau álíta að þau séu skuldbundin að því, hvað ætla þau þá að gera?“ bætir hann við.

„Ef við fáum jákvætt svar verður flaggað hér á allar stangir, held ég. Ef við fáum neikvætt held ég að menn hætti nú á miðri leið.“

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tvær hindranir í veginum 

Bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og verkefnastjóri samfélagsuppbyggingar í Vesturbyggð, fóru á fund með Jóni Gunnarssyni, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, í gær.

Þar voru framkvæmdirnar í Gufudalssveit meðal annars ræddar. Að því er kemur fram í tilkynningu frá Vesturbyggð var ráðherra jákvæður um að hægt verði að bjóða út verkið á þessu ári. Fyrst þurfi að tryggja fjárveitingu til þess.

Haukur bendir á að ráðherra hafi ekki enn sagt opinberlega að búið sé að tryggja fjármuni til framkvæmdanna. Því séu íbúar Vestfjarða að bíða eftir.

Hann segir tvær hindranir vera í veginum. Annars vegar álit Skipulagsstofnunar og viðbragða stjórnvalda við henni og hins vegar peningamálin. „Við erum ekkert búin að klára þessa baráttu.“

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekkert útspil frá ráðherra

Haukur nefnir að fundur með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum á dögunum hafi sýnt að menn séu að leggja sig fram í málinu. „Fundurinn var mjög málefnalegur og góður. Þau voru ekki með neinar fréttir eins og við áttum von á því það hafði verið ríkisstjórnarfundur um morguninn. Við áttum von á að það kæmi útspil frá ráðherra sem gæti sagt okkur að það væri eitthvað framundan en það kom aldrei. Fundurinn var samt mjög „kúltiveraður“ þrátt fyrir alla þessa reiði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert