Var pennavinur forsetans

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Georgíumaðurinn og Íslandsvinurinn Grigol Matchavariani urðu fyrir tilviljun pennavinir meðan Guðni stundaði háskólanám í Bretlandi fyrir um aldarfjórðungi. Guðni hvatti Grigol meðal annars til að rita frægt bréf sem birtist í Morgunblaðinu haustið 1992 og varð til þess að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, bauð honum og eiginkonu hans, Irmu, hingað til lands í heimsókn.

Eftir að Grigol lést í bílslysi árið 1996 flutti Irma til Íslands ásamt dóttur þeirra, Tamar, og hafa þær búið hér síðan og lítur sú síðarnefnda á sig sem Íslending og hugsar til föður síns á tungumálinu sem hann kenndi sér sjálfur heima í Georgíu, með hjálp fornbóka, og unni af öllu sínu hjarta.

„Ég upplifi mig sem Íslending; hér hef ég alist upp, þroskast og mótast. Mér myndi ekki detta í hug að segja: ÞIÐ eruð að standa ykkur vel í fótbolta! Ég myndi alltaf segja: VIÐ erum að standa okkur vel í fótbolta!“ segir Tamar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

„Það myndi ég líka gera,“ skýtur móðir hennar inn í. „Ætli ég teljist ekki vera georgísk-íslensk.“

Og mæðgurnar standa ekki einar hér á landi. „Ég á alveg rosalega góðan vinahóp og það er íslenska fjölskyldan mín,“ upplýsir Tamar.

Mæðgurnar Irma og Tamar Matchavariani.
Mæðgurnar Irma og Tamar Matchavariani. Kristinn Magnússon

Grigol lenti í bílslysi í Tbílísí 21. mars 1996 og lést af sárum sínum 1. apríl. Harmur var að íslensku þjóðinni kveðinn við þau tíðindi enda hafði hún tekið ástfóstri við þennan geðþekka vin sinn.

Tamar var á sjötta ári þegar faðir hennar lést en man samt vel eftir honum. „Ég var algjör pabbastelpa. Í minningunni lét hann allt eftir mér; var afslappaðri en mamma sem var meira vonda löggan,“ segir hún og ýtir kersknislega við móður sinni. Þær hlæja.

„Það er alveg rétt,“ segir Irma. „Grigol var mjög ljúfur og það kom oftar í minn hlut að halda aga.“

Grigol var mjög músíkalskur, var í hljómsveit, spilaði á gítar og bassa og söng.
„Hann var gítargaurinn í partíinu,“ rifjar Irma upp. „Manstu þegar hann kenndi þér að syngja?“ spyr hún dóttur sína.

„Nei,“ svarar Tamar undrandi. „Það hefur alla vega ekki tekist vel hjá honum; ég get alls ekki sungið og myndi aldrei láta mér detta í hug að gera það opinberlega.“
Hún brosir.

Irma og Grigol Matchavariani ásamt Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, meðan …
Irma og Grigol Matchavariani ásamt Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, meðan á Íslandsheimsókn þeirra stóð veturinn 1992-93. Kristinn Ingvarsson

Davíð Oddsson og Guðni  Th. Jóhannesson rifja einnig upp kynni sín af Grigol í Sunnudagsblaðinu.

Davíð er minnisstætt hvað Grigol mæltist fallega.

„Það var ævintýralegt að tala við Grigol. Á fyrsta fundi okkar, eftir að þau komu til landsins, sagði hann mér frá því að ræningjar hefðu látið greipar sópa í lestinni, sem þau tóku frá Tbílísí til Moskvu. Þau Irma áttu á hinn bóginn ekki mikið á þessum tíma og ekki var eftir miklu hjá þeim að slægjast.

Um það hafði Grigol þessi orð: „Yðar hágöfgi, segja má að ræningjarnir hafi farið í geitarhús að leita ullar.“ Annað var eftir þessu; hann talaði fornt og vandað mál og gerði það hnökralaust.“

Guðni rifjar einnig upp kostulega sögu: „Grigol hafði mikinn metnað fyrir hönd íslenskrar tungu og fann iðulega að því, með sínu kurteislega lagi, ef maður vogaði sér að sletta. Þá benti hann vinsamlega á, að íslenskan væri það rík af orðum að óþarfi væri að grípa til slettna úr ensku eða öðrum tungumálum. Grigol var hreintungumaður af guðs náð!“

Í Sunnudagsblaðinu er einnig birt handskrifað bréf sem Grigol sendi Guðna árið 1991. 

Efst í fréttinni má einnig, með góðfúslegu leyfi Ríkisútvarpsins, sjá viðtal við Grigol Matchavariani úr sjónvarpsfréttum síðla árs 1992. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert