Vilja að borgin haldi Keilugranda

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja úthlutun á Keilugranda 1 þrengja mikið að …
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja úthlutun á Keilugranda 1 þrengja mikið að framtíðarmöguleikum Vesturbæinga á nýju útivistar- eða íþróttasvæði. Kort/map.is

Meirihluti borgarráðs samþykkti í gær að úthluta lóðinni Keilugrandi 1 ásamt byggingarétti fyrir 78 íbúðir fyrir búseturétt eða leiguíbúðir á vegum Búseta. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni en þeir telja að nýta ætti svæðið í þágu íþrótta- og útivistarstarfsemi í Vesturbænum.

Tillagan fer til borgarstjórnar í næstu viku en í samtali við mbl.is segist Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ekki búast við öðru en að hún verði samþykkt þar, líkt og í borgarráði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja þó að borgin haldi lóðinni.

„[Úthlutunin] þrengir svo að framtíðarmöguleikum Vesturbæinga með útisvæði og svæði fyrir íþrótta- og tómstundastarf. Þess vegna höfum við vilja halda þessu svæði. Það verður bara ekkert grænt svæði eftir í Vesturbænum eftir þetta.“

Byggja á 78 íbúða fjölbýlishús á Keilugranda 1.
Byggja á 78 íbúða fjölbýlishús á Keilugranda 1. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Að sögn Halldórs hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins stutt þéttingaráform borgarstjórnar en um leið gagnrýnt „ofurtrú á að 90% þéttingar verði að vera fyrir vestan Elliðaár,“ því það geti leitt til þess að „við förum fram úr okkur á rótgrónum svæðum.“

„Þetta þýðir líka að það byggist of hægt. Það vantar miklu fleiri íbúðir en á sama tíma og öll áherslan er á svona þéttingu, jafnvel á kostnað útivistar- og íþróttasvæða, þá hefur meirihlutinn ekki viljað úthluta lóðum í austanverðri borginni.“

Spurður hvort um fyrirsjáanlegan vanda sé að ræða hvað varðar vöntun á útivistar- og íþróttasvæði í Vesturbænum segir Halldór að hann telji svo vera.

„Ég held að öll framtíðarsýn í svona málum sé mjög mikilvæg. Maður þarf ekki annað en að líta til Hyde Park í London og slíkra garða til að sjá það. Þétting byggðar er fín en hún getur gengið of langt í sumum tilvikum.

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilja fleiri lóðir í Úlfarsárdal

Á fundi borgarráðs í gær lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins einnig fram fyrirspurn um hvar tillaga um fjölgun lóða í Úlfarsárdal væri stödd í borgarkerfinu. Tillagan snerist um að hefja undirbúning á að fjölga lóðum umfram þá fjölgun sem unnið er að núna en á fundi borgarstjórnar í byrjun febrúar var samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.

Í fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kom meðal annars fram að fljótlegast hefði verið að samþykkja tillöguna í borgarstjórn „til að létta undir með þeim sem eru í vandræðum á húsnæðismarkaði vegna mikillar hækkunar á verði og lítils framboðs. […] Með því að vísa tillögunni til borgarráðs var meirihlutinn að tefja málið og enn er það óafgreitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert