Skoða tengsl mergæxla við stóriðju

Mergæxli eru hlutfallslega algengari á Akranesi en annars staðar á landinu. Rannsaka á hvað veldur því.  

Árlega greinast 20 til 25 manns með sjúkdóminn hér á landi. Viðamikil rannsókn stendur yfir hjá Háskóla Íslands þar sem stendur til að skima fyrir sjúkdómnum hjá öllum Íslendingum yfir fertugu, að því er kom fram í kvöldfréttum Rúv.

Rannsóknin hófst á Akranesi þar sem 65% bæjarbúa yfir fertugu hafa samþykkt þátttöku. Þar hefur greiningum á mergæxlum fjölgað undanfarin ár.

Frá 1984 til 2004 greindist enginn með mergæxli á Akranesi en núna mælist tíðni krabbameinsins hæst á landinu.

55% þeirra sem greindust með sjúkdóminn á tímabilinu sem rannsakað er á landinu öllu voru karlar. Á Akranesi var hlutfallið 82%.

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Háskóla Íslands, segir að rannsakað verði sérstaklega hvað valdi þróuninni á Akranesi. Meðal annars verða skoðuð hugsanleg tengsl vegna starfa við stóriðjuna á Akranesi, álverið og Sementsverksmiðjuna. Mataræðið verður einnig skoðað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert