36 mál inn á borð Bjarkarhlíðar

Bjarkarhlíð er í grónu umhverfi í Bústaðahverfi.
Bjarkarhlíð er í grónu umhverfi í Bústaðahverfi. mbl.is/Hallur

Frá því að Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, opnaði formlega í byrjun mars hafa 36 mál komið þangað inn. Flestir sem hafa leitað þangað hafa orðið fyrir endurteknu ofbeldi og eru birtingamyndir ofbeldisins margvíslegar.

Skjólstæðingarnir eru með ólíkan bakgrunn og á öllum aldri, frá 18 ára og til eldri borgara en konur eru í meirihluta. Mörg málanna eru gömul en einnig hefur þó nokkuð stór hópur leitað sér aðstoðar í fyrsta skipti til Bjarkahlíðar.  

„Þegar við opnuðum runnum við blint í sjóinn og vissum ekki alveg við hverju við áttum að búast. Ég persónulega bjóst við að það væri mikil eftirspurn eftir þessu úrræði eins og raun ber vitni,” segir Haf­dís Inga Hinriks­dótt­ir fé­lags­ráðgjafi og sérfræðingur hjá Bjarkarhlíð.  

Tveir starfs­menn eru í hús­inu auk Hafdísar starfar Ragna Björg Guðbrands­dótt­ir sem verk­efn­is­stjóri. Í hús­inu gefst þolend­um kost­ur á viðtöl­um og ráðgjöf hjá fé­lags­ráðgjöf­um, lög­reglu og lög­fræðing­um auk annarra sérfræðinga sér að kostnaðarlausu. Að sögn Hafdísar er mikið spurt um lög­fræðiráðgjöf­ina.

Góð nýting á starfsfólki

Í Bjarkarhlíð starfa ýmsir sérfræðingar en þær Hafdís og Ragna beina fólki í viðeigandi úrræði og fylgir málum þeirra eftir. „Þetta er mjög góð nýting á hinum ýmsu sérfræðingum því málin eru margþætt og flókin og krefjast aðkomu margra,“ segir Hafdís. 

Bjarkarhlíð er í grónu umhverfi, Bústaðahverfinu. „Það skiptir miklu máli að umhverfið og húsnæðið sé hlýlegt. Við fáum að heyra það nánast hjá hverjum einasta sem kemur inn að hingað sé gott að koma. Við leggjum áherslu á þolandinn finni að það sé vel haldið utan um hann,” segir Hafdís. 

Flestir hafa haft samband símleiðis eða með tölvupósti einnig hefur þó nokkur fjöldi haft samband í gegnum Facebook-síðu Bjarkarhlíðar

Verk­efnið er þró­un­ar­verk­efni til tveggja ára og er sam­starf Reykja­vík­ur­borg­ar, Sam­taka um kvenna­at­hvarf, Stíga­móta, vel­ferðarráðuneyt­is­ins, Dreka­slóðar, Mann­rétt­inda­stofu Íslands og Kvennaráðgjaf­ar­inn­ar.

Ragna Björg Guðbrandsdóttir og Hafdís Inga Hinriksdóttir starfa í Bjarkarhlíð.
Ragna Björg Guðbrandsdóttir og Hafdís Inga Hinriksdóttir starfa í Bjarkarhlíð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert