Blæs hressilega um helgina

Búast má við nokkuð blautu og hvössu veðri víða um …
Búast má við nokkuð blautu og hvössu veðri víða um helgina. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það blæs vel svona fram eftir helginni,“ segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Vindurinn nær sér nokkuð vel á strik núna með kvöldinu og á morgun. Ekkert aftakaveður að sögn Haraldar, en nokkuð hvassviðri og stormur víða.

Þá verður talsverð rigning nú í kvöld og verður töluvert fram á nóttina. Á morgun er búist við suðvestan átt með skúrum eða éljum á vesturhelmingi landsins og sígur hitinn þar aðeins niður. Hins vegar verður frekar hlýtt á Austurlandi og þurrt en þó nokkuð hvasst í veðri.

Á sunnudag má áfram búast við einhverri rigningu, e.t.v. verður þó ekki jafn vindasamt og í kvöld og á morgun en þó einhver strekkingur. „Þetta er eins og maður kallar bara umhleypinga, það skiptast á hlý sunnanátt og svalari suðvestan átt,“ útskýrir Haraldur.

Eftir helgi er útlit fyrir nokkuð rólegt og gott veður, þó áfram heldur þungt yfir en á mánudag gæti létt til sunnanlands, köflótt skýjafar og hæglætis veður.

Veðurhorfur á landinu samkvæmt vef Veðurstofunnar:

Í kvöld og á morgun:

Gengur í sunnan 15-23 m/s með talsverðri rigningu V-til, en hvessir síðan einnig A-til og sums staðar væta þar í nótt. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast A-til. Suðvestlægari og skúrir eða él á morgun og kólnar smám saman, en úrkomulítið fyrir austan. Dregur talsvert úr vindi og éljum S- og V-lands annað kvöld.

Á sunnudag:

Sunnan 8-15 og súld eða rigning, en þurrt NA-lands. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast NA-til.

Á mánudag:

Norðlæg átt, víða 5-10 m/s. Bjartviðri á S-verðu landinu, annars skýjað en úrkomulítið. Hiti 2 til 7 stig að deginum S-lands, en í kringum frostmark norðan heiða.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Ákveðin austanátt, skýjað með köflum og skúrir eða él SA-lands. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag og föstudag:

Austlæg átt, rigning með köflum og milt veður, en úrkomulítið á V-verðu landinu.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert