Andlát: Helgi M. Bergs

Helgi M. Bergs, fyrrverandi lektor við viðskiptadeild, viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri, lést aðfararnótt fimmtudags 16. mars sl. eftir baráttu við veikindi síðustu árin.

Helgi hóf störf sem stundarkennari við Háskólann á Akureyri árið 1988 en starfaði svo við skólann samfellt frá árinu 1991 til 2015.

Helgi var bæjarstjóri á Akureyri í tíu ár, frá 1976 til 1986, og starfaði sem framkvæmdastjóri Kaffibrennslu Akureyrar frá 1986 til 1990, að því er kemur fram á vefsíðu Háskólans á Akureyri.

„Helgi vann ötullega að uppbyggingu viðskiptadeildar HA. Hann skildi vel að auka þyrfti aðgengi að háskólamenntun utan Reykjavíkur og tók því virkan þátt í því að viðskiptafræðin við HA yrði í boði fyrir fólk um allt land í gegnum fjarnám. Í störfum sínum sem lektor en jafnframt deildarformaður var hann öflugur talsmaður fjarnámsins og er hann einn af frumherjum fjarkennslu í háskólanámi á Íslandi,“ segir á vefsíðunni.

„Starfsfólki Háskólans á Akureyri er efst í huga þakklæti fyrir langt og gott samstarf. Helgi var einstaklega fjölfróður: hann gat af þekkingu tekið þátt í nánast hvaða umræðum sem var og verið mjög rökfastur. Hann var einnig einstakur húmoristi þar sem gráglettnin var einkennandi og fátt þótti honum skemmtilegra en að taka þátt í umræðum og rökræðum við samstarfsfólk sitt.“

Helgi verður jarðsunginn frá Langholtskirkju mánudaginn 27. mars kl. 13.

Kennsla og önnur starfsemi fellur niður við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri þann dag.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert