Danskt uppboðshús á leið til landsins

Meðal þess sem Bruun Rasmussen sækist eftir hér á landi …
Meðal þess sem Bruun Rasmussen sækist eftir hér á landi eru listaverk eftir íslenska listamenn eins og Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur og Jóhannes Kjarval. Ljósmynd/Bruun Rasmussen

Íslensk listaverk, skartgripir, mynt og frímerki eru meðal þess sem hægt verður að koma með á Grand hótel í næstu viku en þar verða fulltrúar danska uppboðshússins Bruun Rasmussen. Þar verður hægt að fá ókeypis verðmat á munum án skuldbindingar. Einnig er hægt að bóka heimsóknir frá fulltrúum uppboðshússins til þess að fá mat á hluti.  

Tengiliður Bruun Rasmussen á Íslandi, Össur Kristinsson, segist í samtali við mbl.is nú vera á fullu að bóka heimsóknir í næstu viku en viðburðurinn á Grand hótel fer fram á miðvikudaginn frá klukkan 15 til 19.

Meðal þess sem Bruun Rasmussen sækist eftir hér á landi eru listaverk eftir íslenska listamenn eins og Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Jóhannes Kjarval, Kristínu Jónsdóttur, Ásgrím Jónsson, Snorra Arinbjarnar, Thorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur, Erró og Ólaf Elíasson.

Bruun Rasmussen kom síðast til Íslands fyrir fjórum árum og var aðsóknin þá gríðarleg að sögn Össurar. Hann á erfitt með að segja til um hversu mörgum er búist við á Grand hótel en segir nokkuð marga hafa haft samband síðustu daga til að bóka heimsóknir.

Hann segir suma aðeins koma til þess að fá mat á munina sína á meðan aðrir komi til þess að selja. Farið er með þá hluti, sem sölusamkomulag næst um, til Danmerkur þar sem þeir verða boðnir upp á uppboði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert