Skólastjórinn saumar líka búninga

Guðmundur Helgason, skólastjóri Listdansskóla Íslands, sér um fleira en reksturinn.
Guðmundur Helgason, skólastjóri Listdansskóla Íslands, sér um fleira en reksturinn. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Það fer ekki mikið fyrir plássinu á skrifstofu skólastjórans við Listdansskóla Íslands. Bunkar af skjölum liggja á skrifborðinu, ásamt saumavél sem vekur forvitni blaðamanns. Það er nóg að gera enda stutt í afmælishátíð skólans sem er 65 ára á árinu. 

Áhugi drengja jókst eftir Billy Elliot

Í skólanum eru í dag um 130 nemendur í grunn- og framhaldsdeild og eru stúlkurnar í miklum meirihluta nemenda. „Það eru í það heila um 10-15 strákar í skólanum þannig að hlutfallið er ekki mjög hátt. En það hefur bæst aðeins við eftir að Billy Elliot var sýndur, það kom smákippur. Það er gaman að segja frá því að þeir sem dönsuðu hlutverkið í Borgarleikhúsinu eru komnir í nám til okkar núna, eftir sýninguna. Það var ákveðið tómarúm sem mætti þeim eftir að sýningunni lauk,“ segir Guðmundur en þessir strákar höfðu ekki verið í skólanum áður. „Ég held það hafi verið plantað fræi sem þeir finna að þarf að vökva og hlúa að.“

Nám til að búa til atvinnudansara

Er verið að leggja grunn að framtíðarstarfi í dansi hjá krökkunum í skólanum?
„Já, það er með þetta eins og margt annað listnám. Flestir atvinnuhljóðfæraleikarar byrja ungir í hljóðfæranámi. Það er svipað með þetta. Það fer kannski eftir því hvernig dans þú leggur fyrir þig, en ef þú ætlar að vera sterkur klassískur dansari eða nútímadansari, þá er betra að byrja fyrr og leggja grunninn. Til að þjálfa líkamann. Við erum í dansinum alltaf að ögra líkamanum, hoppa hærra, gera brjálaða snúninga. Við erum að leika okkur með þessi mörk, hvað getum við gert með líkamanum. Og því fyrr sem við byrjum að aga hann og ná stjórn á þessu tæki okkar sem líkaminn er, því betra.“

Dans er list augnabliksins

Skólinn fagnar 65 ára afmæli á árinu og af því tilefni verður stór afmælissýning sem allir nemendur skólans taka þátt í. Æfingar hafa staðið yfir í marga mánuði en sýnt verður í Borgarleikhúsinu mánudaginn 27. mars.
„Við byrjum á yngstu nemendum og svo koll af kolli en það endar svo í stóru hópatriði. Þetta verður skemmtilegt að sjá. Af þessu tilefni hef ég samið nýtt númer við músík sem er mjög grand og svolítið brjáluð.“
Hvernig finnst þér Íslendingar taka dansi?
„Ég held að það séu rosalega margir sem ekki gefa þessu listformi séns. Fólk fer kannski á eina sýningu, finnst hún leiðinleg og fer aldrei aftur. En dansinn er rosalega fjölbreyttur. Það er mjög erfitt að draga ályktun út frá einni sýningu. Það er bara eins og að hlusta á eitt lag og þér finnst það leiðinlegt og þú hættir að hlusta á tónlist. Sem listform erum við að túlka tilfinningar án orða, þó að það sé oft notaður texti í bland við hreyfingarnar. Það er mjög margt sem hægt er að segja með líkamanum sem ekki er hægt að segja með orðum. Fólk er oft hrætt við að það þurfi að skilja danssýningar en í rauninni er það ekki nauðsyn. Við viljum að sýningin veki einhver hughrif hjá þér. Þú færð einhverja tilfinningu, þú þarft ekki að skilja. Þetta er kannski frekar list augnabliksins. Það eru vissulega til verk með boðskap en það eru líka til abstrakt verk sem eru fallegar hreyfingar á sviði með fallegri tónlist sem skilur eftir einhverja tilfinningu hjá áhorfendum.“ 

Lagar búninga og saumar frá grunni

Blaðamaður getur ekki annað en spurt út í saumavélina sem blasir við. 

Af hverju er skólastjórinn með saumavél?

„Já, það er góð spurning!“ segir hann og hlær. „Það er nú þannig því miður að þessi skóli er, eins og svo margir skólar sem eru að sinna þessari kennslu, undirfjármagnaður. Sem betur fer er ég handlaginn þannig að ég er í því að laga búninga og sauma jafnvel suma frá grunni,“ segir Guðmundur. 

„Svo er ég húsvörðurinn og sinni viðhaldi, og markaðsdeildin, það er ég,“ segir hann og brosir.

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Stífar æfingar standa yfir en afmælissýning skólans er á mánudag …
Stífar æfingar standa yfir en afmælissýning skólans er á mánudag í Borgarleikhúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Fáir drengir eru í listdansi.
Fáir drengir eru í listdansi. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert