Stal úr verslunum í miðbænum

Tilkynnt var um karlmann í annarlegu ástandi sökum ölvunar sem var að stela úr verslunum í miðborginni á fimmta tímanum í dag. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangaklefa þar sem ekki var hægt að ræða við hann sökum ástands.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Þá var tilkynnt um eignaspjöll inni á hóteli í hverfi 108 og um innbrot inn í félagsmiðstöð í hverfi 200.

Klukkan 11:20 var  karlmaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í Árbæ. Þar að auki var maðurinn ökuréttindalaus þar sem hann hafði verið sviptur þeim fyrir nokkru. Hann var frjáls ferða sinna eftir blóðsýna- og skýrslutöku.

Þá var kona handtekin klukkan 11:22 vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis í sama hverfi. Hún var frjáls ferða sinna að lokinni blóðsýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert