Sæla Karitasar fer í útvarpsspilun

Karitas söng af lífi og sál í Voice Ísland.
Karitas söng af lífi og sál í Voice Ísland. Ljósmynd/Magnús Stefán Sigurðsson

Karitas Harpa Davíðsdóttir, sem vann aðra þáttaröð Voice Ísland, hefur í nægu að snúast þessa dagana. Í dag mun nýja lagið hennar, Sæla, fara í spilun í útvarpi á Íslandi. Salka Sól Eyfeld söngkona og dómari í Voice Ísland syngur í laginu ásamt Karitas. Lagið mun vera endurbætt útgáfa af My love með áströlsku söngkonunni Sia. Karitas söng My love á ensku til sigurs í Voice Ísland en Arnar Freyr Frostason úr Úlfur Úlfur og þjálfari Karitasar í þáttunum samdi íslenska textann við lagið.

Sækir hæfileikana til föður síns

Karitas Harpa hefur að sögn foreldra sinna sungið alveg síðan hún var lítil. Hún ólst upp í Bandaríkjunum meðan foreldrar hennar voru í námi og lærði að syngja á báðum tungumálum samtímis. Faðir hennar stundaði nám í klassískum söng svo hún á ekki langt að sækja sönghæfileikana. Haft hefur verið eftir móður hennar að hún hafi sem barn sungið á ensku á barnaskemmtunum í Bandaríkjunum og troðið síðan upp í jólaboðum á Íslandi og sungið á íslensku nokkrum dögum seinna.

Karítas og Salka Sól á K100

Tungumálakunnáttan nýttist henni vel þegar hún flutti lagið My Love á ensku í Voice Ísland og verður spennandi að heyra það á íslensku. Karitas Harpa mun ásamt Sölku Sól mæta í viðtal hjá Svala á K100 í hádeginu á morgun. Þar munu Karitas og Salka ræða um Voice Ísland og verkefnin sem eru framundan hjá hinni fyrrnefndu og verður nýja lagið Sæla spilað. mhj@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert