„Ég er bara svo hissa“

Jón Þór Ólafsson.
Jón Þór Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður pírata, spurði fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag hvort að landsmenn allir ættu ekki að vita hverjir eru raunverulegir kaupendur að hlutum Arion banka.

„Eins og lögin eru núna er það bara Fjármálaeftirlitið sem fær þau gögn en í trúnaði,“ sagði Jón Þór og bætti við að hann sjái ekki annað en að landsmenn væru tortryggnir í garð eftirlitsstofnana eftir allt sem vitað er um fyrri einkavæðingar.

„Er þetta ekki eitthvað sem væri hægt að gera? Að landsmenn fái bara að sjá hverjir séu raunverulegir eigendur fjármálafyrirtækja í landinu?“ spurði Jón Þór.

Benedikt sagðist vera Jóni Þór hjartanlega sammála; það sé ekki einkamál Fjármálaeftirlitsins hverjir eru eigendur bankanna. 

Eiga ekki að geta falið sig bak við skrýtin nöfn

Landsmenn allir eiga að fá að vita það. Ég tel að almennt eigi landsmenn að fá að vita það hverjir eiga fyrirtæki, að þeir feli sig ekki á bak við einhver skrýtin eigendanöfn og að við vitum hverjir eru hinir endanlegu eigendur. Þetta er algerlega nauðsynlegt til þess að við höfum traust á stofnunum samfélagsins og þetta er sérstaklega mikilvægt þegar bankar eiga í hlut, einkum þegar þetta er einn af stærstu bönkum landsins,“ sagði Benedikt.

Jón Þór kom þá hálf hlæjandi upp í pontu og sagði svar ráðherra alveg frábært. „Þetta sýnir að mönnum er alvara. Ég er bara svo hissa. Maður er svo vanur að koma hér upp og þurfa einhvern veginn að hamra á og orða spurningarnar þannig að þetta sé ljóst og svona. Nú er bara öllu svarað. Takk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert