Vara við leiguíbúðasvindli

Auglýsingunum er beint að Íslendingum en einnig útlendingum sem eru …
Auglýsingunum er beint að Íslendingum en einnig útlendingum sem eru að leita að húsnæði hér á landi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkuð hefur borið á því að óprúttnir erlendir aðilar hafi verið að svíkja fólk með því að bjóða íbúðir sem eru ekki til á netinu. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar fá þeir fólk til að greiða leigu fyrir fram og senda féð til útlanda. Þeir bjóða upp á alls kyns skýringar og veigra sér ekki við að ljá málinu stuðnings. „Við vitum að þeir hafa sett upp auglýsingar á vefjum sem við notum mikið á Íslandi eins og mbl.is og bland.is og höfum verið í mjög góðu samstarfi við að láta loka á slíkar auglýsingar þegar við vitum af þeim,“ segir í frétt um málið á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Aðferðafræði svikahrappanna er nánast eins í öllum tilvikum og staðlaður texti notaður. Íslendingar hafa lent í þessu en svo virðist sem útlendingar séu í sérstökum áhættuhóp. „Það er vel þekkt að leigumarkaðurinn er erfiður í dag en ekki tapa peningum til svindlara sem nýta sér ástandið,“ segir í frétt lögreglunnar.

„Kannið hvort íbúðin sé til og farið jafnvel og skoðið aðstæður. Ef viðkomandi lofar öllu fögru og segir hluti eins og að þetta eigi allt að fara í gegn um Airbnb, en það fer samt ekki í gegnum þjónustusíður Airbnb, er verið að plata ykkur. Ef ykkur grunar að auglýsing sé svindl, sendið okkur skilaboð, annaðhvort hingað eða á abendingar@lrh.is.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert