Sérstakur tónskáldasjóður stofnaður

Að undirskrift komu þau Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, Guðrún Björk …
Að undirskrift komu þau Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður TÍ, og Jakob Frímann Magnússon, formaður FTT. Ljósmynd/RÚV

Stofnskrá sérstaks Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs var undirrituð í dag. Hinum nýja sjóði er ætlað að leysa af hólmi Tónskáldasjóð RÚV, sem verið hefur í vörslu Ríkisútvarpsins, og Tónskáldasjóð Rásar 2, sem verið hefur í vörslu STEFs. 

Markmið sjóðsins er að því er segir í fréttatilkynningu „að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar m.a. með því að veita fjárstuðning til höfunda fyrir tónsmíði og heildstæð verk.“ Vilja þeir sem að sjóðnum standa með þessu skjóta styrkari stoðum undir tónlistarlíf í landinu.

Sjóðurinn er fjármagnaður með framlagi frá RÚV, en með hluta þeirra greiðslna sem RÚV greiðir í höfundarréttargjöld en RÚV er stærsti greiðandi slíkra gjalda hér á landi. Gert er ráð fyrir að um það bil 45 verkefni fái styrk úr sjóðnum árlega og að úthlutunin nemi um 25 m.kr.

Metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni eiga að hafa forgang við úthlutun, en tilgangur sjóðsins er einnig að veita fjárstuðning við nýsköpun verka til flutnings í miðlum RÚV.

Stjórn sjóðsins er skipuð útvarpsstjóra sem fulltrúa RÚV, auk fulltrúa úr Félagi tónskálda og textahöfunda og Tónskáldafélagi Íslands, en síðarnefndu stjórnarmennirnir tveir eru tilnefndir af STEF.

Úthlutað er úr sjóðnum þrisvar á ári og verður fyrsta úthlutun úr sjóðinum í maí á þessu ári, en umsóknir þurfa að berast ekki síðar en 7. maí 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert