Þrjár rútur í vandræðum

Rúta fór út af og tvær minni rútur lentu í …
Rúta fór út af og tvær minni rútur lentu í árekstri við Svartfell í Langadal. map.is

„Veðrið er alveg glórulaust og það er langt frá því að vera skyggni á milli stika. Þeir [björgunarsveitarmennirnir] þurfa að vara hvor annan við þegar bílarnir mætast,“ segir Benedikt Arnórsson, björgunarsveitarmaður á Egilsstöðum.

Rúta með 53 farþegum fór út af veginum við Svartfell í Langadal og á svipuðum tíma lentu tveir rútukálfar í árekstri, í öðrum þeirra voru 16 manns og í hinum einungis ökumaðurinn. Engin slys urðu á fólki. 

Björgunarsveitir vinna nú að því að ferja farþegana til byggða. Fólkið er orðið hrakið og kalt. Aðgerðirnar standa enn yfir en það gengur hægt vegna veðurs. Reiknað með að fólk verði ekki komið niður í byggð fyrr en eftir tvær til þrjár klukkustundir. 

Björgunarsveitirnar munu flytja fólkið um 11 kílómetra leið að afleggjaranum niður að Vopnafirði þar sem aðrar rútur bíða farþeganna. 

Veginum yfir Möðrudalsöræfi hefur verið lokað vegna veðurs og færðar. Mjög slæmt veður er á slysstaðnum, hvasst og snjókoma. Vindhraði er um 30 metrar á sekúndu og allt að 40 metrar í vindhviðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka