Sækja farþega rútu sem fór út af

Björgunarsveitarmenn á Egilsstöðum og víðar á Austurlandi eru á leið …
Björgunarsveitarmenn á Egilsstöðum og víðar á Austurlandi eru á leið inn að Svartfelli í Langadal að ferja rútufarþega til byggða. Steinunn Ásmundsdóttir

Björgunarsveitir á Austurlandi eru á leið inn að Svartfelli í Langadal að ná í farþegum í rútu sem lenti í óhappi. Vonskuveður er á Austurlandi og gengur á með éljum til fjalla.

Uppfært kl. 14:37: 

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Norður- og Austurlandi flytja nú fólk niður af Möðrudalsöræfum en þar lentu þrjár hópbifreiðar í óhappi. Tvær þeirra lentu í árekstri en sú þriðja fór út af. Ekki er vitað til þess að farþegarnir hafi slasast en margir þeirra voru orðnir kaldir þegar björgunarsveitafólk kom á staðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

Veginum yfir Möðrudalsöræfi hefur verið lokað vegna veðurs og færðar. Mjög slæmt veður er á slysstaðnum, hvasst og snjókoma. Vindhraði er um 30 metrar á sekúndu og allt að 40 metrar í vindhviðum. Björgunarsveitirnar munu flytja fólkið um 11 kílómetra leið að afleggjaranum niður að Vopnafirði þar sem aðrar rútur bíða farþeganna, segir ennfremur í tilkynningu. 

„Við vitum lítið núna en óstaðfestar fréttir eru að rúta hafi farið út af veginum. Við  förum með það hugarfar að við þurfum að ferja fólkið til byggða,“ segir Benedikt Arnórsson björgunarsveitarmaður.

Bætt hefur töluvert í vind núna á Egilsstöðum, að sögn Benedikts og inn til fjalla gengur á með éljum.

Björgunarsveitarmenn þurfa að fara yfir 100 km leið til að komast að rútunni. Allir björgunarsveitarmenn og allur bílaflotinn hefur verið virkjaður. Óskað var eftir aðstoð rétt fyrir klukkan 12 í dag.   

Svartfell í Langadal.
Svartfell í Langadal. map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert